franskar - frönskur

Franskar kartöflur hafa verið vinsælt meðlæti með mat undanfarna áratugi, ekki síst með hamborgurum og kjúklingi. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru þó einungis þrjú dæmi um franskar kartöflur, öll úr matreiðslubókum frá því um miðbik 20. aldar.
 • Kartöflur soðnar í tólg (franskar kartöflur).
 • Kjötinu snúið nokkrum sinnum á meðan á suðu stendur. Skorið í þunnar sneiðar og borðað með steiktum (frönskum) kartöflum og soðnu grænmeti.
 • Einnig er ágætt að sjóða í feiti, t.d. fisk eða franskar kartöflur, og baka bæði ýmiss konar ofnrétti og minni mótkökur.
Algengt er að talað sé um franskar í stað þess að segja fullum fetum franskar kartöflur.
 • Lífið er ekki bara fiskur og franskar (Bloggsíða á netinu)
 • Við viljum franskar, sósu og salat! (Texti Stuðmanna)
Væntanlega hefur þetta í upphafi verið einföld stytting eða liðfelling á orðasambandinu þegar augljóst var við hvað var átt. Sérstæða lýsingarorðið franskar er þarna notað eitt sér í merkingunni 'franskar kartöflur' og er þá að sjálfsögðu fallbeygt eftir því sem við á (franskar, um franskar, frá frönskum, til franskra).

Í framhaldi af þessu hefur smám saman orðið til nýtt nafnorð sem oftast er notað í fleirtölu: frönskur. Þetta nýyrði fær venjulega nafnorðabeygingu (frönskur, um frönskur, frá frönskum, til fransk(n)a, sbr. fleirtölu orða eins og saga) og getur tekið mér sér ákveðinn greini eins og hvert annað nafnorð.
 • grænmetið [er] betra hjá Burger King en frönskurnar eru betri hjá McDonald’s. (Textasafn OH)
 • frönskurnar voru hálfkaldar og burgerinn hálfsteiktur því staffið var með sjónvarp á bakvið. (Bloggsíða á netinu)
 • Ég var einu sinni í Luxembourg og þar fékk ég majones með frönskunum, mér fannst það ótrúlega gott. (Bloggsíða á netinu)
Engin dæmi eru um sérstæðu lýsingarorðsmyndina franskar í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans né heldur um nafnorðið frönskur. Það er aftur á móti uppflettiorð í nýjustu útgáfu Íslenskrar orðabókar (2002) í merkingunni 'franskar kartöflur'. Þar er það sagt vera óformlegt mál, sem er í ágætu samræmi við þau dæmi sem hægt er að finna á vefnum, og gefið er dæmið áttu tómatsósu út á frönskurnar? til að sýna notkun þess.

Heimildir
 • Íslensk orðabók. 2002. Ritstjóri Mörður Árnason. 3. útgáfa, aukin og bætt. Reykjavík: Edda.
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
 • Textasafn Orðabókar Háskólans

Ólöf Margrét Snorradóttir
júlí 2002
og Ásta Svavarsdóttir