frí

Hvorugkynsnafnorðið frí er algengt í nútímamáli og merkir 'leyfi (frá störfum), orlof'. Í söfnum Orðabókar Háskólans eru dæmi um nafnorðið frí allt frá 16. öld en elstu dæmin sýna allfrábrugðna notkun og merkingu en þá sem nú tíðkast.

Í elstu dæmum í ritmálssafninu kemur orðið einkum fyrir í sambandinu með frí sem einkum virðist vísa til endurgjaldslausra afnota af einhvers konar aðstöðu, leyfis til að nota eitthvað eða njóta einhvers án þess að greiða fyrir það.
 • Þar skal huert skip hafa höfn med frij sem þad kann fyrst ad ad bera. (16. öld)
 • Hólakirkja og Hólabiskupsdæmi skyldi standa með frí og feligheit fyrir biskup Mattheo. (17. öld)
 • Skipastöður með frí fyrir eitt skip hafa þessar jarðir í Þorlákshöfn. (18. öld)
Það er ekki fyrr en í lok átjándu aldar og byrjun þeirrar nítjándu að fram koma dæmi um nútímamerkingu orðsins, þ.e.a.s. 'leyfi frá störfum'.
 • géfa vinnukonum frí hverja laugardagskvøldvøku. (18. öld)
 • að gefa frí einstaka daga er bannað strengiliga. (19. öld)
 • kaupmenn [ [...]] gefa þjónum sínum frí einn virkan dag. (19. öld)
 • Er þá oft gefið frí í skólanum. (20. öld)
Sögnin fría kemur fyrir þegar í fornu máli en eigi að síður eru öll þessi orð talin vera tökuorð, sögnin úr miðlágþýsku en nafnorðið frí og lýsingarorðið frí eða frír úr dönsku. Í ritmálssafninu er dæmi sem vitnar um það að sumum hafi verið uppsigað við orðið af þeim sökum:
 • hann var svo mikill málhreinsunarmaður, að hann bar sér aldrei orðið ,,frí`` í munn, heldur notaði orðið undanþága.

Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
 • Íslensk orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon. Reykjavík: Orðabók Háskólans 1989
 • Íslensk orðabók - tölvuútgáfa. Reykjavík: Edda 2000