friðgin

Í fornu máli hafði orðið fjölskylda aðra merkingu en tíðust er nú. Þá hafði orðið hyski nánast merkinguna `fjölskylda, heimilisfólk'  og það var alls ekki neikvæðrar merkingar áður fyrr. Eitt er það orð annað í fornu máli sem hefur merkinguna `foreldrar og börn'. Þetta er orðið friðgin. Það er reyndar afar sjaldgæft, kemur einungis tvisvar fyrir, einu sinni í óbundnu máli og öðru sinni í bundnu.

Orðið friðgin kemur fyrir í Plácítusdrápu, íslensku helgikvæði frá fyrri hluta 12. aldar, ortu út af helgisögu, Plácítus sögu, sem til er í íslenskri þýðingu en hún er yngri en kvæðið. Þar er orðið haft um foreldra og börn þeirra, þ.e. fjölskyldu. Í óbundnu máli kemur orðið fyrir í fornu postulasagnahandriti og er þar einnig haft um fjölskyldu, hjón og syni þeirra.

Stofnliðurinn frið- í orðinu friðgin er sami stofn og í orðinu friður sem m.a. merkir `ást'. Af þessum stofni eru t.d. orðin friðill og frilla (friðla), svo og sagnorðið fría/frjá `elska, unna' og gyðjuheitið Frigg.

Viðliðurinn -gin geymir orðmyndunarviðskeytin -g- og -in og er hinn sami og í orðunum feðgin `faðir og dóttir/dætur' og mæðgin `móðir og dóttir/dætur' og reyndar er -kin í systkin af sama toga. Enn fremur kemur viðskeytið -g- fram í orðunum feðgar `faðir og sonur/synir' og mæðgur `móðir og dóttir/dætur'.