frumkvæði

Svipmynd úr Íslensku orðaneti

Orðið frumkvæði um upphaf til athafna er yngra í málinu en ætla mætti því það kemur fyrst fram í rituðum heimildum á níunda áratug 19. aldar (sbr. Tímarit.is). Frá þeim tíma eru dæmi úr Þjóðólfi og Fjallkonunni en auk þess er orðið að finna í „orðaskrá yfir nýgjörvinga og fátíð orð“ sem Jón Ólafsson lét fylgja þýðingu sinni á ritinu Um frelsið eftir John Stuart Mill sem út kom árið 1886.

Úr Íslensku orðaneti. Smellið á myndina til að stækka hana.

Í Íslensku orðaneti tengist orðið frumkvæði fjölda merkingarskyldra orða í hliðskipuðum orðasamböndum, eins og fram kemur á meðfylgjandi mynd. Leiðin að merkingarsviðinu frumkvæði, þar sem orðasambönd eru í fyrirrúmi, liggur um orð, orðastreng eða orðasamband. Hér er tekið dæmi af flettunni „beita sér fyrir <samkomulagi>“. Þar koma fram flokkaðar upplýsingar um ólík merkingarvensl flettunnar:

  • stóra heild sambanda sem eru hneppt saman sem hugtak undir lýsandi fyrirsögn, hér "eiga frumkvæði að <málinu>". Orðasamböndin birtast í stafrófsröð en þeim má endurraða með því að smella á rofann "Sýna setningargerð".
  • skyld hugtök undir viðeigandi fyrirsögn, t.d. "hafa forystu um <framkvæmdina>", "vera framtakssamur" o.fl. Ef smellt er á eitthvert hugtakið birtast flettur á því merkingarsviði.

Vefslóð Íslensks orðanets er www.ordanet.is.

Jón Hilmar Jónsson og Þórdís Úlfarsdóttir

mars 2010