gammósíur

Kvenkynsnafnorðið gammósíur hefur þrenns konar merkingu samkvæmt orðabókum:
 1. háar skóhlífar (úr gúmmí)
 2. legghlífar
 3. síðar, þröngar prjóna- eða teygjubuxur
Í íslenskri orðabók (2000) eru uppflettimyndirnar tvær, bæði eintalan gammosía með tveimur fyrri merkingunum og fleirtalan gammosíur með síðustu merkingunni. Það er sú merking sem algengust er í nútímamáli og e.t.v. hafa hinar tvær aldrei verið mjög tíðar, a.m.k. eru fá dæmi um þær í ritmálssafni Orðabókar Háskólans.
 • Gottesen var þar sjálfur kominn í fótabúnað sem þá var tíðkaður af heldrimönnum og nefndist gammasíur. (Ritmálssafn OH)
 • Helst vill Dýrleif að fólk vandi líka klæðaburðinn hvunndags, dagar morgunsloppa eru víðast taldir og ekki verra að eiga eitthvað betra en gammosíur að bregða sér í. (Mbl. 1995)
 • Tískudrósir á barmi örvæntingar geta huggað sig við að gammosíur hafa fengið uppreisn æru, eina ferðina enn. (Mbl. 1997)
 • þar sem þykkar sokkabuxur eða gammósíur í svörtu, hvítu, eða áberandi skærum litum [...] eru fastur fylgihlutur pínupilsanna þetta árið er kannski ástæðulaust að láta aldurinn stoppa sig. (Mbl. 2003)
 • Gammósíur eru alveg ótrúlega góðar!! Móðir splæsti á mig einum slíkum um daginn fyrir skíðin. (Bloggsíða á netinu)
Í langflestum dæmanna, sem valin eru af handahófi úr nýlegum textum, vísar orðið til þröngra buxna sem yfirleitt eru hafðar innan undir öðrum buxum, kjól eða pilsi. Dæmin sýna líka að þetta eru fyrst og fremst kven- og barnaflíkur.

Eins og dæmin sýna er ritmyndin svolítið breytileg: gammósíur, gammosíur eða gammasíur. Munurinn liggur í táknun áherslulausa sérhljóðsins og óvíst er að mismunandi ritháttur endurspegli mikinn mun í framburði. Orðið er tökuorð úr dönsku gamache, gamaske 'legghlíf'; þangað er það komið úr frönsku en upprunalega er orðið er ættað úr arabísku. Dæmi í söfnum Orðabókarinnar eru tiltölulega ung, frá miðri 20. öld, en vel má vera að orðið eigi sér lengri sögu í talmáli.

Heimildir
 • Ritmáls- og talmálssafn Orðabókar Háskólans
 • Íslensk orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon. Reykjavík: Orðabók Háskólans 1989
 • Íslensk orðabók - tölvuútgáfa. Reykjavík: Edda 2000
 • Gagnasafn Morgunblaðsins