gangdagar

Dagarnir þrír, mánudagur, þriðjudagur og miðvikudagur, á undan uppstigningardegi eru kallaðir gangdagar eða síðari gangdagar (rogationes) til aðgreiningar frá gangdeginum eina sem einnig var kallaður gangdagurinn mikli og litli gangdagur (lithania major) (Þorsteinn Sæmundsson 1972:118). Gangdagar lenda eins og uppstigningardagur á misjöfnum tíma frá apríllokum til júníbyrjunar, allt eftir því hvenær páskar eru ár hvert.

Gangdagurinn eini var 25. apríl. Um hann segir í Almanaki Hins íslenzka þjóðvinafélags (1879:57):

25. April er helgaður Markúsi Guðspjallamanni. Þann dag er gángdagurinn eða Gagndagurinn mikli, og er það til aðgreiníngar frá þeim þremur gángdögum í uppstígningarvikunni.


Í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar er kafli með yfirskriftinni ,,Hjátrú úr pápísku“. Þar er fjallað um gangdaginn eina en honum greinilega ruglað við gangdagana næsta á undan uppstigningardegi. Þar stendur (IV:85):

Á gángdaginn eina var haft það embætti sem aldrei var haft endrarnær; það var á miðvikudaginn næstan fyrir uppstigningardag. Þá var gengið kringum túngarða, fyrst frá kirkju í þá átt sem miðmorgunsátt er, svo í kringum náttmálastað, þaðan réttlínis til kirkju aftur; var borið vígt vatn undan og uppihaldstika. Á öngum var prestur þá messuklæðum utan litlar tölur á hálsi og bar handbók sína. Stóð sinn kross í hvorri átt á túngarði, í miðmorguns-, dagmála-, hádegir-, miðmunda-, nóns-, miðaftans- og náttmálastað. Ekki var þá sungið nema prestur las sjálfur. Allt fólkið gekk þar á eftir, og þetta var gjört á hverju byggðu bóli þó prestur væri ekki því hann bauð fólkinu svo að gjöra áður á næstliðnum sunnudegi og skyldi það lesa sín fræði og bænir sem það kynni og befala sig guði.


Þessi texti á rætur að rekja til ritgerðar um gamla siði sem samin var í Skálholti árið 1593 og hefur verið eignuð Oddi biskupi Einarssyni (Árni Björnsson 1993:88). Nafn daganna er dregið af þessum helgigöngum en göngurnar lögðust niður við siðskipti.

Snemma urðu stafavíxl í orðinu gangdagur þannig að notað var gagndagur og virðast báðar myndir nokkurn veginn jafn gamlar. Gangdagar er án efa hið upphaflega nafn þar sem dæmi er um orðið gangdagas í fornensku þegar á 9. öld og frá um 1000 eru dæmi um orðið gangwuce um þá viku sem dagarnir lenda í. Dæmi úr miðlágþýsku eru um gangwoche og gangdage (Árni Björnsson 1993:81).

Heimildir:

  • Almanak hins íslenzka Þjóðvinafjelags. 1879. Kaupmannahöfn.
  • Árni Björnsson. 1993. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík.
  • Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. 1956. Safnað hefur Jón Árnason. Nýtt safn IV. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík, Bókaútgáfan Þjóðsaga.
  • Þorsteinn Sæmundsson. 1972. Stjörnufræði. Rímfræði. Reykjavík, Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins.