gatasnar

 Ýmiss konar orð og orðalag er notað um slitnar flíkur. Stundum er talað um flík sem farin er að láta á sjá að hún blái í götum, hún sé eins og gatasigti eða tágahrip; gauðslitin, borin, skriðin, sundurskriðin, skriðnuð.

Eitt af þeim orðum sem notað hefur verið um slitna og snjáða flík er orðið gatasnar. Þetta var vel þekkt orð í máli fólks fram á síðustu áratugi liðinnar aldar en heyrist kannski fremur sjaldan núorðið í nægtaþjóðfélagi nútímans þar sem flíkum er einfaldlega hent þegar þær fara að slitna í stað þess að áður fyrr var sett bót á fat eða stoppað í sokk.

Í talmálssafni Orðabókar Háskólans eru mörg dæmi um orðið gatasnar alls staðar að af landinu og heimildarmenn taka fram að þetta sé einkum haft um hvers kyns flíkur, skyrtur, treyjur, buxur og sokkaplögg sem farin eru að gefa sig svo að á sést. Sumir heimildarmenn nefna að auki að orðið sé haft um ýmislegt annað sem farið er að ganga úr sér svo sem poka, yfirbreiðslur (á hey) og jafnvel ílát. Enn fremur eru dæmi þess að illa prjónuð flík, sem mörg lykkjuföll eru á sökum þess að „höndunum hefur verið slegið til verksins,“ hafi verið kölluð gatasnar.

Að síðustu geta flestir heimildarmenn þess að gatasnar sé enn fremur sérstakt prjón, eins konar útprjón, sem einkum hafi verið haft í bekk á þríhyrnum eða skakka, þ.e. höfuð- eða herðaklút kvenna. Þetta hafi verið prjónað á sérstakan hátt, þó með ýmsum afbrigðum, svo að út hafi komið gisin áferð eins og um göt væri að ræða. Einn heimildarmaður lýsir þessu t.d. þannig að teknar séu saman tvær lykkjur og bandinu slegið upp á prjóninn, endurtekið allan prjóninn á enda. Fleiri áþekkar lýsingar með ýmsum afbrigðum er að finna í bréfum frá heimildarmönnum.
 
Engin gömul dæmi er að finna um orðið gatasnar. Það hefur ekki ratað inn í prentaðar orðabækur enn sem komið er. Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans er hins vegar að finna orðið gataprjón og eftir lýsingunni að dæma er þetta nánast sama prjónið og gatasnar eins og heimildarmenn lýsa því.
 
Heimildir
  • Íslensk samheitaorðabók. Ritstjóri: Svavar Sigmundsson. Reykjavík: Styrktarsjóður Þórbergs Þórðarsonar og Margrétar Jónsdóttur, Háskóla Íslands 1985.
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
  • Talmálssafn Orðabókar Háskólans
Ágúst 2010