geðshræring

Svipmynd úr Íslensku orðaneti

Orðið geðshræring ber merkingu sína að miklu leyti með sér þegar horft er til myndunar þess og samsetningar. Merking orðsins er skýrð svo í Íslenskri orðabók:

1 snögg og sterk tilfinning, skyndilegt umrót á sálarástandi ...
2 ástríða

Líklegt er að orðið sé tökuþýðing og sæki fyrirmynd sína til danska orðsins sindsbevægelse sem fram kemur í upphafi 18. aldar sem samsvörun tökuorðsins affekt (sbr. ODS).

Orðið kemur fyrst fyrir í íslenskum ritheimildum seint á 18. öld, m.a. í eftirfarandi dæmi úr Kvöldvökum Hannesar Finnssonar sem finna má í ritmálssafni Orðabókar Háskólans:

... eins og það sje ekki enn svívirðilegra, að láta geðshræringar sigra sig.

Hér virðist merking orðsins reyndar fremur í ætt við síðara merkingarbrigðið sem getið er í Íslenskri orðabók en um það eru annars ekki áþreifanleg dæmi. Athyglisvert er að sú merking kemur einnig fram á elsta stigi orðsins sindsbevægelse í dönsku samkvæmt ODS (þar sem skýringarorðið er lidenskab). Önnur elstu dæmi um orðið geðshræring í ritmálssafni koma heim við almenna merkingu þess í nútímamáli.

Í Íslensku orðaneti tengist orðið geðshræring fjölda merkingarskyldra orða í hliðskipuðum orðasamböndum, þar sem vísað er til ólíkra kennda og tilfinninga. Þessi fjölbreyttu tengsl koma vel fram á meðfylgjandi mynd.

 

 

 

 

 

Úr Íslensku orðaneti. Smellið á myndina til að stækka hana.

 

Leiðin að merkingarsviðinu geðshræring, þar sem orðasambönd eru í fyrirrúmi, liggur um orð, orðastreng eða orðasamband. Hér er tekið dæmi af flettunni „vera í geðshræringu“. Þar koma fram flokkaðar upplýsingar um ólík merkingarvensl flettunnar:

  • merkingarlega náskyldar flettur með samstæðri setningargerð undir heitinu samheiti/skyldheiti, t.d. "vera í uppnámi"
  • stóra heild sambanda sem eru hneppt saman sem hugtak undir lýsandi fyrirsögn, hér " vera í geðshræringu". Orðasamböndin birtast í stafrófsröð en þeim má endurraða með því að smella á rofann "Sýna setningargerð".
  • skyld hugtök undir viðeigandi fyrirsögn, t.d. "gráta", "vera undrandi", "finna til <gleði, kvíða>" o.fl. Ef smellt er á eitthvert hugtakið birtast flettur á því merkingarsviði.

Vefslóð Íslensks orðanets er www.ordanet.is.

Heimildir

  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
  • Íslensk orðabók. 2002. Ritstjóri Mörður Árnason. 3. útgáfa. Edda, Reykjavík.
  • ODS = Ordbog over det danske sprog. 1919 o.áfr. Det danske sprog- og litteraturselskab. København.
     

Jón Hilmar Jónsson og Þórdís Úlfarsdóttir

mars 2010