gellur

Orðið gella, um tiltekinn vöðva í fiskhaus, er ekki gamalt orð íslensku máli. Eitthvert elsta dæmið í söfnum Orðabókar Háskólans er úr blaðinu Ísafold frá árinu 1904 (bls. 87):

 • Gellur vel hreinar og mjög ódýrar

Orðið kemur einnig snemma fyrir í ritum eftir Bjarna Sæmundsson dýrafræðing og í Ferðaminningum Sveinbjarnar Egilson ritstjóra o.fl. og hefur verið algengt til þessa dags því að gellur þykja mörgum besti matur og fást daglega í hverri fiskbúð, nýjar og nætursaltaðar. Hér eru nokkur dæmi frá fyrri hluta síðustu aldar og fram yfir miðbik hennar:

 • Hann bauðst til að steikja, … fyrir mig þyrskling, …, kinnar eða gellur eftir vild (SvbEgFerð II, 673)
 • Kinnar og gellur eru matur (Ægir 1917, 152)
 • Í þennan afgirta kima létu hásetar gellur úr fiski þeim, er þeir veiddu (Ægir 1940, 109)
 • Og á hverjum sunnudegi eru gellurnar taldar og stýrimaður skrifar niður hvað hver maður hefur dregið marga fiska síðustu viku  (JÁrnVeturnóttak, 43)

Líklega er þó orðið eldra í málinu en frá byrjun 20. aldar því að samsetta orðið gellutal kemur fyrir í blaðinu Þjóðólfi 1890, en gellutal er fjöldi eða talning á gellum og sagði til um aflamagn skipa. Orðið sjálft, gella, er tökuorð úr dönsku, gælle, en til er gamalt íslenskt orð um þennan vöðva, kverksigi (-segi, -sagi „bútur, stykki“, e.t.v. skylt so. saga eða síga) og eru dæmi um myndina kverksigi allt frá því snemma á 18. öld. 

Á síðari áratugum hefur orðið gella jafnframt fengið merkinguna „glæsistúlka; tískudrós“, en ekki er auðvelt að tímasetja hvenær sú merking kemur upp. Hér má þó nefna að þessi merking er ekki í Íslenzkri orðabók Menningarsjóðs frá 1963. Hana er heldur ekki að finna í annarri útgáfu þess verks árið 1983. Hins vegar er merkingin „(glæsileg) stúlka; tískudrós“ komin í 3. útgáfu sömu bókar árið 2002. Enn fremur má geta þess að í sýningu leikritsins Sölumaður deyr eftir Arthur Miller fyrir um áratug er orðið gella notað á einum stað um glæsiklædda stúlku. Í þessari sýningu var notuð sama þýðing og þegar verkið var fyrst sýnt á sviði hér, en yfirfarin af starfsfólki leikhússins. Þýðandinn hafði upphaflega notað pæja eða skvísa á umræddum stað.

Heimildir

 • Ísafold. Reykjavík 1874–1912.
 • Íslenzk orðabók handa skólum og almenningi. 1963. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
 • Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. Önnur útgáfa, aukin og bætt. 1983. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
 • Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. 2002. Reykjavík: Edda.
 • JÁrnVeturnóttak: Jónas Árnason. Veturnóttakyrrur. [2. útg.]. 1976. Reykjavík: Ægisútgáfan. [Fyrsta útg. 1957].
 • SvbEgFerð: Sveinbjörn Egilson. Ferðaminningar. Frásögur frá sjóferðum víða um heim. 2. útg. aukin. 1949. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja. [Fyrsta útg. 1922].
 • Þjóðólfur. Reykjavík 1848–1912.
 • Ægir. Mánaðarrit um fiskiveiðar og farmennsku. 1917. Reykjavík.

Gunnlaugur Ingólfsson
janúar 2013