genverðugur

Samkvæmt heimildum í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans birtist lýsingarorðið genverðugur fyrst í málinu á 16. öld. Að öðru leyti eru heimildir um orðið fáar og strjálar. Eitt dæmi er um það á 17. öld, en síðan eru einungis tvö dæmi, annað frá miðbiki 20. aldar, hitt frá síðasta þriðjungi aldarinnar, sjá Ritmálssafn. Í Textasafni Orðabókarinnar er ekkert dæmi um orðið að finna.

Merking orðsins genverðugur er, að því er virðist af elstu dæmum, ‘öndverður, fjandsamlegur, óvinveittur’:

  • var þá séra Ólafur með nokkrum genverðugum orðum (Alþb. I, 128 (1572))

segir um deilur sem urðu á Alþingi árið 1572, þar sem skarst í odda og hörð orð féllu.

Önnur dæmi eru fremur bundin persónum og framkomu þeirra en orðunum, með svipaðri merkingu, en þó kannski meira í átt við ‘andsnúinn, þverúðugur’, t.d. genverðugur móti sínum lærimeistara (17. öld), snúinn og genverðugur (20. öld), „genverðugir“ og uppástöndugir (20. öld). Dæmin eru úr Ritmálssafni Orðabókarinnar.

Þó að dæmi um orðið genverðugur séu bæði fá og strjál, benda heimildir úr mæltu máli til þess að það hafi lengi verið þekkt víða um land. Í Talmálssafni Orðabókar Háskólans eru dæmi um orðið úr öllum landsfjórðungum, en þó einna fæst af austanverðu Norðurlandi og Austurlandi. Þessi dæmi eru úr viðtölum og bréfum heimildarmanna Orðabókarinnar frá 1958–72. Merkinguna skýra heimildarmenn sem ‘uppástöndugur, gikkslegur, stór upp á sig’, en einkum og sér í lagi lýtur merkingin að því að vera ‘vandfýsinn, vandlátur á mat, matvandur’. Strandamaður segir t.d. í bréfi til Orðabókarinnar: „Hann er svo genverðugur, að hann fæst ekki til að borða venjulegan mat.“ Rangæsk kona orðar þetta svo: „genverðugur ... sem er matvandur og uppástöndugur“. Gamall Reykvíkingur kemst svo að orði: „ ... að vera svo genverðugur að vilja ekki nema rautt eitt úr eggi“. Að síðustu má tilfæra orð Snæfellings í sömu veru: „genverðugur ... sem ekki vill þiggja nema það sem gott er eða bezt, ... sem er matvandur“.

Lýsingarorðið genverðugur á sér ekki beinan frændgarð í málinu og er því talið tökuorð. Ásgeir Blöndal Magnússon segir í Íslenskri orðsifjabók að genverðugur sé tökuorð úr dönsku „genvordig, sbr. fd. [þ.e. forndönsku] genwerdugh ‘þverúðugur, ódæll’“. Innan sviga nefnir Ásgeir forsetninguna gagnvart ‘á móti, andspænis’ líklega sem arftekinn ættingja lo. genverðugur.

Að lokum má geta þess að í fornu máli kemur fyrir lo. gagnverðuligr að því er virðist í merkingunni ‘andstreymur, mótdrægur’.

Heimildir

  • Alþb.: Alþingisbækur Íslands. 1912–1969. Reykjavík: Sögufélag.
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. [Reykjavík] 1989: Orðabók Háskólans.
  • Orðabók Háskólans: arnastofnun.is [Ritmálssafn].
  • Orðabók Háskólans. Talmálssafn. [Seðlasafn].

Gunnlaugur Ingólfsson
maí 2008