geska og geskur

Þeir sem eitthvað þekkja til Austurlands, Austfirðinga og austfirsks máls, hafa eflaust heyrt ávarpsorðið geska og geskur. Þetta er notað í vinalegum tón, t.d. af foreldrum við börn, milli hjóna, vina og vinkvenna. Þeir sem eru þessu óvanir eða heyra þetta í fyrsta sinn átta sig e.t.v. ekki á því þegar í stað hvað þetta merkir, þ.e. hver uppruninn er, af hverju þetta er dregið.

En margir Austfirðingar og Héraðsbúar nota hér einnig orðmyndirnar gæska og gæskur og þá rennur upp fyrir flestum hvaðan þetta er komið: Þessar orðmyndir eru dregnar af lo. góður með orðmyndunarviðskeytinu -sk- eins og mörg önnur dæmi eru um, t.d. gleymska, heimska, kænska, lymska, níska o.fl. Orðið gæska er enn fremur notað í almennri merkingu `það að vera góður' og einnig í samsetningum eins og hjartagæska og manngæska.

En hvernig stendur á þessu e-i í geska? Svo er talið af flestum fræðimönnum að hér sé um að ræða leifar forns framburðar sem varðveist hafi lengur í málinu á Austurlandi en annars staðar og þessi framburður hafi lifað í nokkrum orðum fram eftir öldum og hans verði vart enn í dag og orðið geska sé dæmi um þetta.

Það hljóð sem táknað er með bókstafnum æ í nútímamáli átti sér einkum tvenns konar uppruna í fornu máli, á og ó, t.d. særa<sár; stæra<stór. Þessi tvenns konar uppruni var táknaður á mismunandi hátt í elstu handritum og þessi tvenns konar æ-hljóð rímuðu þá ekki saman. Hvort tveggja ber vitni um mismunandi framburð; talið er að annað hljóðið hafi haft /e/-framburð en hitt /ö/-framburð. En snemma féllu þessi hljóð saman í eitt og útkoman varð /e/-hljóð. Þar eð þetta hljóð var langt hneigðist það til tvíhljóðunar, eins og önnur löng hljóð í forníslensku, og fékk framburðinn /aí/. Þessi breyting varð á löngum tíma og virðist hafa eimt eftir af gamla framburðinum á Austurlandi langt fram eftir öldum og í einstökum orðum allt til þessa dags.

Auk orðsins geska hefur til skamms tíma mátt heyra eystra framburðinn gerkvöld fyrir gærkvöld. En fleiri dæmi eru til frá síðari tímum. Frá hendi Árna Magnússonar (1663–1730) er dálítið orðasafn sem prentað er í ritinu Árni Magnússons Levned og Skrifter, síðara bindi, bls. 237–54. Á bls. 251–52 segir svo (hlaupið yfir fáein atriði, stafsetning færð til nútímahorfs, latínuslettur íslenskaðar, leturbreytingar eru mínar):

Lekur fyrir lækur, keti fyrir kæti og (fleira) þvílíkt hefur til skammrar stundar verið almennilegur framburður í Austfjörðum. Í ungdæmi þeirra sem nú (1703) eru miðaldra sögðu það gamlir menn, hinir yngri og í sumum orðum. Nú skal það að mestu aflagt vera vegna samskipta norðlenskra er þangað hafa byggðum farið, helst kvenfólk. ... Hún gekk á reður með manni, sagði Austfirðingurinn um konuna. María mer, mild og sker. ... mér sú merin ljósa í minni er.

Hér má bæta því við að Jón Ólafsson úr Grunnavík hefur eftir orientalibus, þ.e. Austfirðingum, að þeir segi repa í stað ræpa.

Heimildir
  • Árni Magnússons Levned og Skrifter. Udgivet af Kommissionen for Det Arnamagnæanske Legat. Andet Bind. København MCMXXX.
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
  • Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. Önnur útgáfa, aukin og bætt. Ritstjóri Árni Böðvarsson. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1983.
  • Orðabók Grunnavíkur-Jóns, Lexicon Islandicum ... . Uppskrift á seðla varðveitt á vinnustofu Orðabókar Háskólans.