gestasprettur

Orðið sprettur er ekki ýkjagamalt í íslensku máli, ef marka má heimildir. Það kemur ekki fyrir í fornu máli, og í ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru elstu dæmi um orðið frá 17. öld og nauturinn að því ekki minni maður en Æri-Tobbi: Þambara vambara þeysings sprettir … . Það er þó vísast gamalt í málinu, því að það hefur greinst í nokkrar merkingar og gengur í mörgum samsetningum bæði sem fyrri og seinni liður: lokasprettur, endasprettur ‘sérstakt átak, aukinn hraði í lok hlaups; lokaátak í verki’; hlaðsprettur ‘hörð reið síðasta spölinn heim í hlað’; sprettharður, spretthlaup o.fl., o.fl.

Í talmálssafni Orðabókar Háskólans eru þrjú dæmi um orðið gestasprettur. Þau eru af Suðaustur-, Austur- og Norðurlandi. Heimildarmaður úr Álftafirði í Suður-Múlasýslu segir að það hafi verið nefndur gestaprettur í hundum þegar þeir hlupu hljóðlaust á móti gestum en geltu þegar þeir komu að þeim. Heimildarmaður af Fljótsdalshéraði notar orðið hins vegar um það þegar húsráðendur „hleypa sér í tiltektarham“ af því að von er á gestum með litlum fyrirvara. Þriðji heimildarmaður er úr Skagafirði og notar orðalagið að taka gestasprettinn og segir svo hafa verið komist að orði þegar húsfreyja flýtir sér mjög mikið vegna þess að gestir eru væntanlegir.

Þó að heimildir um orðið séu fáar og strjálar er greinilegt að það hefur verið þekkt víða um land og væri þakkarvert ef einhver, sem rekur augun í pistil þennan og kannast við orðið, vildi senda tölvuskeyti á gi@hi.is.

Gunnlaugur Ingólfsson
október 2009