gormánuður

Gormánaðar er getið þegar í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu. Þar segir:

Frá jafndægri er haust, til þess er sól sezt í eykðarstað. Þá er vetr til jafndægris. Þá er vár til fardaga. Þá er sumar til jafndægris. Haustmánuðr heitir inn næsti fyrir vetr, fyrstr í vetri heitir gormánuðr.
(1949:229).

Gormánuður er því fyrsti mánuður vetrar og hefst á laugardegi, fyrsta vetrardag, á bilinu 21.-28. október og stendur þar til ýlir tekur við mánudaginn í fimmtu viku vetrar. Sama nafn ber mánuðurinn í svonefndri Bókarbót frá 12. öld sem varðveitt er í handriti frá því um 1220. Gormánuður, þorri og góa eru einu fornu mánuðirnir sem aldrei sjást kallaðir öðru nafni (Árni Björnsson 1993:17).

Gormánuður ber nafn af því að sláturtíð hófst í þeim mánuði. Með gor er átt við hálfmelta fæðu í innyflum dýra, einkum jórturdýra. Tengsl við slátrun má sjá í dæmasafni Orðabókar Háskólans:
  • Gormánudr tekr nafn af slaatrun Fenadar.
  • Gamlir menn kölluðu þennan mánuð [þ.e. nóvember] gormánuð og slátruðu aldrei fyr en hann var byrjaður.
  • fylgdu margvíslegar annir: sauma slagvefjur, raka gærur, spýta skinn eða blásteinslita og önnur störf gormánaðar.
Heimildir
  • Ritmálsskrá OH
  • Árni Björnsson. 1993. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík.
  • Edda Snorra Sturlusonar. 1949. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Íslendingasagnaútgáfan, Reykjavík.