gósenland

Í fyrstu Mósebók, 45,10, kemur fyrir nafnið Gósenland. Það var hérað eða landsvæði í Egiptalandi þar sem Ísraelsmenn fengu að búa um hríð með nautgripi sína og sauðfé, því að það var vel fallið til kvikfjárræktar, en Egiptar sjálfir kærðu sig lítið um hjarðbúskap og þóttu illir hjarðmenn. Nafnið kemur nokkrum sinnum fyrir, t.d. 1Mós 46,34, 47,1,4,6 o.v., svo og í 2Mós 8,18 og 9,26. Það kemur einnig fyrir í myndinni Gósen, t.d. í 1Mós 46,28,29.

Í íslensku máli hefur þetta nafn brotist út úr Biblíunni og orðið að samnafni og fengið merkinguna ‘gott land og gjafaríkt, land þar sem gott er að búa og gnótt tækifæra’. Elsta dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr rímum frá síðari hluta 19. aldar:

þjer hjálpandi gæfan gaf,
gósen land að finna
(JJBerth XIV 85)
 
Síðan eru dæmi um orðið í yfirfærðri merkingu allt fram á síðustu áratugi síðustu aldar, sjá Ritmálssafn á arnastofnun.is. Úr Textasafni stofnunarinnar er m.a. þetta dæmi:
 • Vatnsmýrin er dæmi um gósenland þeirra sem þétta vilja byggðina

En það er ekki einungis að orðið gósenland hafi rutt sér til rúms utan Ritningarinnar, heldur hefur forliðurinn gósen- losað sig frá og fjölgað sér með því að mynda ný orð eins og gósendalur, gósentíð, gósentími og gósenöld, einkum og sér í lagi virðist orðið gósentíð algengt og notað helst um skemmtilega og spennandi tíma, uppgangstíma:

 • það er gósentíð fyrir fantasíuunnendur því að nú streyma allskonar ævintýrabækur á markaðinn
 • síðasti spretturinn fyrir kosningar er gósentíð fyrir áhugafólk um stjórnmál
 • með opnun Fáskrúðsfjarðarganga mun áhrifasvæði álvers stækka og gósentíð renna upp
 • það er því óneitanlega þversögn að einmitt í slíkri gósentíð skuli fátækt aukast ár frá ári
 • haugur af gömlum söngleikjum, hvílík gósentíð!

Svo er að sjá sem þessi gósen-merking og orðmyndun tíðkist ekki með þessum hætti í skyldum grannmálum. Ekki hef ég fundið nein dæm um Goshen eða Goshenland í þeim dönsku orðabókum sem mér eru tiltækar. En í Norsk ordbok IV, sp. 630 er flettan gosen ... rikt og grøderikt område … með skírskotun til 1Mós 45, sbr. hér í upphafi. Og í Svenska akademiens ordbok 10 G 769 er flettan GOSEN … om ett ”välsignat” o.d., rik(t) l. bördig(t) land (l. plats). Enn fremur eru dæmi þess í ensku að Goshen sé notað um ‘a place of plenty or of light’ (Shorter Oxford Dictionary 1, 1121). Það er sem sé til að Gósen sé notað í þessum málum í yfirfærðri merkingu um gott land, en orðið hefur ekki frjóvgast þar á viðlíka hátt og í íslensku.

Heimildir

 • JJBerth: Rímur af Berthold enska. Kveðnar af Jóni Jónssyni. Akureyri 1874.
 • Norsk ordbok. Ordbok over det norske folkemålet og det nynorske skriftmålet. Band IV. Oslo 2002.
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans: arnastofnun.is/page/arnastofnun_gagnasafn_ritmal
 • Shorter Oxford Dictionary: The New Shorter Oxford English Dictionary on Historical Principles. Volume 1. A–M. Oxford 1993.
 • Svenska akademiens ordbok: Ordbok over svenska språket utgiven av Svenska akademien. Tionde bandet. G―GÖTTNISK. Lund 1929.
 • Textasafn Orðabókar Háskólans: arnastofnun.is/page/arnastofnun_gagnasafn_textasafn
 • Dæmin um gósentíð eru fengin úr Íslenskum orðasjóði, http://wortschatz.uni-leipzig.de/ws_ice/