goskall

Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru nokkur dæmi um orðið goskarl/-kall, allt frá fyrsta þriðjungi síðustu aldar fram á síðustu ártugi aldarinnar. Enn fremur eru nokkur dæmi um orðið í textasafni Orðabókarinnar frá síðustu áratugum næstliðinnar aldar. Hins vegar er eldri saga þess heldur bláþráðótt, því að það kemur fyrir í orðabók Guðmundar Andréssonar (†1654) frá miðri 17. öld (prentuð 1683), en eftir það verður ekki vart við orðið fyrr en í ritum frá fyrsta þriðjungi 20. aldar, og síðan fær það inni í viðbæti við orðabók Sigfúsar Blöndals 1963. Þar er heimildin Hið ljósa man (1944, bls. 60) eftir Halldór Kiljan Laxness.

Guðmundur Andrésson tilgreinir orðið gosi og segir það styttingu úr goskall (sem reyndar má lesa hjá honum góðskall eða gósskall) og þýðir þau með latneska orðinu ‘servulus’ sem merkt getur í seinni tíma latínu ‘vinnudrengur, vinnupiltur’. Enn fremur tilgreinir Guðmundur orðið spilagosi ‘tiltekið mannspil’. Í síðari tíma máli, s.s. eins og í dæmunum sem Orðabók Háskólans hefur úr 20. aldar ritum virðist orðið goskarl merkja svipað og hjá Guðmundi Andréssyni, en þó verður ekki séð að goskarl sé endilega ungur að árum:

 • Við höfum goskarl, sem gætir miðstöðvarofnsins og heldur lifandi undir katlinum. Réttur 1929, 258
 • Hann var goskall og piltur við verslunina. HKLHljm, bls. 60
 • Hann var nokkurskonar goskarl hjá Sigfúsi o. fl., bar út sorp, sótti eldivið ― og hesta þegar svo bar undir o.s. frv. JóhHSkál I, 52

Orðið goskarl/-kall er í íslensku tökuorð úr dönsku, gårdskarl, og er gamalt í því máli. Það var m.a. haft um mann sem þjónaði við stærri hús (kaupmannsbústað) í kaupstað og gekk þar í ýmis útiverk og annaðist sendiferðir. Í eldri dönsku var orðið jafnvel haft um vopnfæra menn á höfðingjasetri (sbr. físl. húskarl). Í dönskum orðabókum er ritháttur fyrri liðar greindur gaards-/gaars- eða jafnvel gaas-, svo að framburðar- og ritmyndin gos- í goskall er eðlileg í íslensku. ― Orðið gårdskarl virðist vera að detta upp fyrir í dönsku, ef marka má orðabækur, því að í Nudansk ordbog, 14. udgave, 1. oplag, 1990, er það sagt næsten (foræld[et]) og í Politikens Nudansk Ordbog med etymologi, 1. udgave, 1. oplag 1999, er það horfið. Orðið gårdskarl er heldur ekki að finna í hinu sex binda verki, Den danske ordbog sem út kom á árunum 2003–05.

Á síðustu árum bregður fyrir annarri merkingu í orðinu goskarl, sbr. þessa tilvitnun úr Fréttablaðinu frá árinu 2004:

 • Drengir á aldrinum 15–19 ára stefna í að verða miklir goskarlar því að þeir sötra heilan lítra af sykruðu gosi á dag.

Eftirfarandi kynni að vera tvíræðni hjá höfundi:

 • Hann hafði skilað bílnum í gosdrykkjaverksmiðjuna. Goskarlarnir fögnuðu honum. IGÞorstUngl, 133

Halldór Halldórsson prófessor hefur skrifað um uppruna og sögu orðanna gosi og goskarl í afmælisrit Kristjáns Eldjárns (1976: 220–27). Hann tekur undir skýringu Guðmundar Andréssonar, að orðið gosi sé stytting á orðinu goskarl og sýnir fram á að spilamerkingin í orðinu spilagosi sé kunn fram á 18. öld, en þá tekur orðið gosi yfir þá merkingu, en spilagosi fær smám saman merkinguna ‘galgopi, gárungur, æringi’, en sú merking er kunn, þegar kemur fram á fyrri hluta 19. aldar. Að lokum má geta þess að Ásgeir Blöndal Magnússon hallast að sömu skýringu, að gosi sé stytting úr goskarl, í orðsifjabók sinni.
 
Heimildir:

 • Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Reykjavík 1989.
 • Den danske ordbog. Det Danske Sprog- og Litteraturselskab. Gyldendal 2003–05.
 • Fréttablaðið. 2004.
 • Guðmundur Andrésson. Lexicon Islandicum [1683]. Orðabók Guðmundar Andréssonar. Ný útgáfa. Gunnlaugur Ingólfsson og Jakob Benediktsson önnuðust útgáfuna. Orðabók Háskólans. Reykjavík 1999.
 • Halldór Halldórsson 1976. ‘Um orðin gosi og goskarl.’ Minjar og menntir. Afmælisrit helgað Kristjáni Eldjárn 6. desember 1976, bls. 220–27. Reykjavík. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1976.
 • HKLHljm: Halldór Kiljan Laxness. Hið ljósa man. Helgafell. 1944.
 • IGÞorstUngl: Indriði G. Þorsteinsson. Unglingsvetur. Almenna Bókafélagið 1979.
 • JóhHSkál: Jóhannes Helgi. Skálateigsstrákurinn. Jóhannes Helgi gengur á vit Þorleifs Jónssonar. Skugsjá 1977.
 • Nudansk ordbog. 14. udgave. 1. oplag. 1990.
 • Politikens Nudansk Ordbog med etymologi. 1. udgave. 1. oplag 1999.
 • Réttur. Fræðslurit um félagsmál og mannréttindi. Reykjavík 1929.
 • Sigfús Blöndal. Íslensk-dönsk orðabók. Viðbætir. Ritstjórar Halldór Halldórsson og Jakob Benediktsson. Samverkamenn Árni Böðvarsson og Erik Sønderholm. Íslenzk-danskur orðabókarsjóður 1963.