gudda og guddubíll

Á Austurlandi, Héraði og Fjörðum, voru til skamms tíma bílar sem nefndir voru guddur eða guddubílar.

Þetta voru litlir hertrukkar með drifi á öllum hjólum og skammpalli, eins konar pikköppar þeirra tíma. Þessir bílar komu upphaflega með breska hernámsliðinu og voru af tegundinni Dodge, kallaðir Dodge Weapon (frb. vípon) en hétu líklega Dodge Weapon Carrier o.fl.

Mynd af Dodge Weapon Carrier eða "guddu"

Einhvern veginn svona litu herbílarnir út í upphafi
(af vefsíðunni http://www.4wdonline.com/Mil/Dodge/DodgeWC.html)

Þegar Íslendingar tóku að eignast þessa bíla af hernum var gjarnan byggt yfir þá og þeir notaðir fremur til fólksflutninga en vöruflutninga. Þetta reyndust og bestu torfærubílar þeirra tíma, entust langt fram yfir stríð en munu nú sennilega með öllu horfnir.

Eins og áður greinir voru þessir bílar kallaðir guddur austur á landi og hefur Orðabók Háskólans nokkur dæmi um orðið í talmálssafni sínu og eru þau öll að austan, eftir heimildarmönnum af Fjörðum og Héraði. Heimildarmönnum ber saman um að þetta hafi verið herbílar af tiltekinni gerð, gjarnan yfirbygggðir til fólksflutninga eins og þegar er getið. Einn heimildarmaður segir á þessa leið í bréfi frá 1971: ,,Gudda er Dodge Weapon, upphaflega herbíll. Orðið hefur verið á allra vörum á Fljótsdalshéraði til þessa og ég man greinilega að orðið sást á prenti í vikublaðinu Austurland. Mig minnir að í frétt einni hafi verið komist svo að orði að eitt vorið hafi vegurinn út í Eiða verið ófær öllum bílum nema jeppum og guddum."

Ýmsum getum hefur verið leitt að því hvernig þetta heiti muni til komið. Því hefur verið fleygt að þetta sé með einhverjum hætti runnið frá enska orðinu good, goods 'vörur', og lúti að upphaflegri notkun farartækisins. En satt að segja hefur engin viðunandi skýring á uppruna heitisins komið fram. Fyrir skemmstu barst Orðabókinni skemmtileg skýring á uppruna orðsins. Eskfirðingur nokkur sem var að alast upp á sjötta og sjöunda áratugnum segir í tölvuskeyti til starfsmanns Orðabókarinnar að sér hefði verið sagt að breskir og síðar bandarískir hermenn á Reyðarfirði hefðu haft þann háttinn á að merkja bílana nöfnum vinkvenna sinna. Einn átti vinkonu sem kölluð var Gudda og þótti þetta svo eftirtektarvert að bílarnir drógu nafn sitt af henni!

Heimildir
  • Talmálssafn Orðabókar Háskólans