guddíulaus

Samkvæmt orðabókum merkir lýsingarorð  guddíulaus (eða gudíulaus) 'gleðilaus, ánægjulaus'. Það er fyrst og fremst notað sem atviksorð í orðasambandinu það er (gengur) ekki guddíulaust 'það er (gengur) ekki vandræðalaust, það gengur illa'.

Nokkur dæmi eru um þetta orðasamband í ritmálssafni Orðabókar Háskólans og víðar má finna dæmi um notkun þess.

  • það er ekki guddíulaust að þjóna tveim herrum samtímis og hafa báða góða. (OH)
  • En ekki samt gengur það gudíulaust , / en gróðinn er stórfínn og viss. (OH)
  • Það gekk nú ekki guddíulaust með þetta blessaða brúðkaup. (Bloggsíða á netinu)
  • Gekk það ekki alveg guddíulaust þar sem konuna farið að syfja, [...] enda klukkan orðin meira enn tólf og mín að koma af næturvakt. (Bloggsíða á netinu)

Dæmi Orðabókarinnar um orðið eru fá og öll frá 20. öld. Einungis tvö þeirra eru úr ritmáli en auk þess eru allmargar umsagnir um orðið úr talmáli. Þær benda til þess að orðið og orðasambandið sé eða hafi einkum verið notað í Eyjafirði þótt einnig sé vitneskja um notkun þess í Hornafirði og í Íslenskri orðabók er orðið talið staðbundið.

Ásgeir Blöndal Magnússon álítur orðið eiga sér rætur í latneska orðinu gaudium 'kæti' og í latnesk-íslenskri orðabók frá 17. öld er orðið gaudíulaust 'sine Gaudio & Joco', þ.e.a.s. 'án gleði og gamans'. Er þar væntanlega á ferðinni sama orð og gud(d)íulaust þótt mynd orðsins sé ekki alveg sú sama. Ásgeir telur líklegt að orðið sé sprottið úr latínumáli skólapilta og það er því dæmi um gamalt slanguryrði sem breiðst hefur út og varðveist í töluðu máli þótt það hafi sennilega ekki ratað á bækur fyrr en löngu síðar.

Heimildir

  • Ritmáls- og talmálssafn Orðabókar Háskólans
  • Ásgeir Blöndal Magnússon: Íslensk orðsifjabók. (1989)
  • Íslensk orðabók. (tölvuútgáfa 2000)
  • Lexicon Islandicum. Orðabók Guðmundar Andréssonar. [Orðfræðirit fyrri alda IV.]
Ásta Svavarsdóttir
nóvember 2002