gullhamrar

Orðið gullhamar er nú kunnuglegast í fleirtölumynd í orðasambandinu að slá e-m gullhamra í merkingunni 'skjalla e-n, fara með fagurgala við e-n' (OM). Orðið eitt og sér segja fræðimenn að merki 'hamar úr gulli; hamar notaður við gullsmíðar'.

Í fornu máli kemur einu sinni fyrir orðalagið að láta ganga gullhamarinn sem orðabækur þýða 'að lofa gulli og grænum skógum' en virðist af samhenginu eins geta merkt 'hæla, hrósa upp í hástert' eins og fram kemur í þessari vísu sem að líkindum er frá 17. öld:

Fagurgalinn blakar blítt,
blekkir einfaldan,
gullhamarinn gengur títt,
so glóir á hann.
(JSamsKD II, 241)

Eftirfarandi setning er úr riti frá miðri 17. öld:
  • En það er örðugt einstígi að ganga á sjálfan sig og sjá sín lýti, einkum og helzt nær manni gengur vel og lukkan slær honum gullhamar, ... .
Elsta dæmið um orðatiltækið í þeirri mynd sem nú er algengust, slá e-m gullhamra, kemur fyrst fyrir á 18. öld, í orðabók Jóns Ólafssonar úr Grunnavík:
  • gullhamar ... að slá manni gullhamra, verbis splendidis aliqvem extollere, þ.e. fara um hann fögrum orðum.
Þessi mynd orðatiltækisins verður svo algeng á 19. öld og síðan.

Engin dæmi styðja merkinguna 'hamar úr gulli; hamar notaður við gullsmíði'. Orðið virðist bundið orðatiltækjunum að slá e-m gullhamra(na), láta gullhamarinn ganga.

Ekki er ólíklegt að orðalagið eigi sér erlenda fyrirmynd, sbr. að í dönsku kemur fyrir orðið guldhammer í orðatiltæki sem reyndar er horfið úr málinu: Med en guldhammer lukkes tit den stærkeste jærnport op. Orðin guldkrog, guldkugle og guldnøgle eru (eða voru) einnig notuð í föstum samböndum eða orðatiltækjum sem lúta að mútum og fégjöfum.

Heimildir
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
  • Halldór Halldórsson. Íslenzkt orðtakasafn. 3. útgáfa aukin og endurskoðuð. Almenna bókafélagið 1991. [Fyrri útgáfur: 1. útg. I-II 1968, 1969; 2. útgáfa aukin I-II 1978, 1980]
  • Jón G. Friðjónsson. Mergur málsins - Íslensk orðatiltæki, uppruni, saga og notkun. Örn og Örlygur. Bókaklúbbur 1993.
  • Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Edda 2002.
  • Ordbog over det danske Sprog. Syvende Bind. GRAN - HERPAA. København 1925.