hafa mörg járn í eldinum

Orðtakið að hafa mörg járn í eldinum ‘hafa mörg viðfangsefni í senn, hafa margt í takinu’ er þekkt í íslensku máli, reyndar í ýmsum afbrigðum, allt frá 17. öld:

Hagleiksmenn, / sem hafa járn í eldi þrenn, / vilja sig óðum auðga (frá miðri 17. öld)

Þó óttast eg ætíð, að menn eftir því nýja skólaplani hafi of mörg járn í eldi í einu (s.hl.18. aldar)

Eg hef allt of mörg járn í eldinum og allt of mikið aðkall úr ýmsum áttum (s.hl. 19. aldar)

Hann gat fram á elliár haft ótal járn í eldinum án þess nokkurt þeirra brynni (f.hl. 20. aldar)

Hann hafði jafnan mörg járn í eldinum í senn (frá miðri 20. öld)

Hún hefur ýmis járn í eldinum sem gætu komið henni að gagni ef hún kæmi fram á sviði í framtíðinni (upphaf 21. aldar)

Einnig er talað um að stinga mörgum járnum í eldinn ef maður hefur margt í hyggju.—Orðtakið, að hafa mörg járn í eldinum, er erlent að uppruna í íslensku máli og kemur fyrir í öðrum norrænum málum: d. have mange jærn i ilden, n. ha mange jern i ilden, s. ha många järn i elden. Að líkindum hefur íslenskan þegið orðtakið úr dönsku sem aftur hefur fengið það úr þýsku. Þýska orðtakið er, viele/mehrere/noch ein Eisen im Feuer haben. Eftirtektarvert er að merking þýska orðtaksins er ‘að eiga nokkurra kosta völ, eiga ýmsan útveg’ en þeirrar merkingar gætir lítt eða ekki í íslensku að því er séð verður. Þó kynni að mega ráða slíka merkingu úr síðasta dæminu hér að ofan. Að lokum er þess að geta að orðtakið þekkist í einni eða annarri mynd og merkingu í ensku og frönsku en ólíklegt er að þær tungur eigi hér hlut að máli.

Heimildir

Íslensku dæmin eru fengin úr Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, sjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Gagnasöfn. Erlendu dæmin eru fengin úr almennum orðabókum í hverju máli.

Skammstafanir

d.: danska
f.hl.: fyrri hluti (aldar)
n.: norska
s.: sænska
s.hl.: seinni hluti (aldar)
Gunnlaugur Ingólfsson
nóvember 2012

Gunnlaugur Ingólfsson
nóvember 2012