hafurtask

Hvorugkynsorðið hafurtask er haft um margvíslegt dót eða skran, einkum það sem menn flytja með sér, s.s. búslóðir og farangur af ýmsu tagi. Oft er það haft í sambandinu „með allt sitt hafurtask“ eða þvíumlíkt.

Dæmi um notkun orðsins:
  • ég pakkaði saman hafurtaski okkar, kom því á flutningabíl og hélt til Akureyrar
  • Ég sagði honum að taka upp allt sitt hafurtask, mannskap og tæki og koma með það [...] suður
  • Farangursrýmið leyfir hins vegar ekki alltof mikið hafurtask.
Í heimildum frá fyrri öldum ber ekki á að hafurtask tengist sérstaklega flutningum eða farangri en vel má ímynda sér að merkingin hafi leitað í þessa átt vegna þess að niðurlag orðsins, -task, minnir fólk e.t.v. á töskur og ferðalög.

Elsta dæmi um hafurtask í ritmálssafni OH er frá 16. öld en orðið mun vera tökuorð úr miðensku. Haberdashere var í miðensku haft um skransala og í yngri ensku fyrirfinnst orðið haberdasher sem var á 16. öld notað um smávörukaupmenn, ekki síst þá sem seldu hatta og húfur. Nú á dögum eru orðin haberdasher og haberdashery helst höfð um herrafataverslanir eða (í Bretlandi) verslanir með saumavörur eins og tölur, nálar, blúndur og þess háttar.

Um uppruna enska orðsins er flest óljóst, oftast er haft fyrir satt að það eigi rætur að rekja til normannskrar frönsku hapertas 'smávarningur' en einnig hefur verið stungið upp á því að norræna orðið hafurstaka 'húð af geithafri' liggi hér að baki.

Heimildir
  • Söfn Orðabókar Háskólans.
  • Ásgeir Blöndal Magnússon 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Reykjavík.
  • Eyvindur Eiríksson. 1981. Burgeisar, ribbaldar, barúnar og allt það hafurtask. Afmæliskveðja til Halldórs Halldórssonar, 13. júlí 1981; bls. 85–96.

Aðalsteinn Eyþórsson
september 2003