harpa

Harpa er fyrsti mánuður sumars að íslensku misseristali og hefst hún sumardaginn fyrsta á bilinu 19. til 25. apríl. Á undan henni er einmánuður en skerpla tekur við af henni.

Orðið harpa þekkist ekki fyrr en á 17. öld en fram að því hafði þessi fyrsti mánuður sumars ekkert sérstakt heiti. Í Íslenskri orðsifjabók (1989:308) er uppruni orðsins talinn óviss og það virðist ekki eiga sér samsvaranir í grannmálunum. Ásgeir Blöndal Magnússon hyggur að harpa sé hugsanlega skylt sögninni að herpa í merkingunni 'kipra, draga saman, þrengja að' og nafnorðinu herpingur 'kipringur, samdráttur, frostbitra, kuldanæðingur'. Með mánaðarheitinu harpa væri þá ef til vill verið að vísa til kyrkingslegs gróðurs á þessum árstíma eða nepju.

Elsta heimild Orðabókarinnar um hörpu er úr kvæði frá 18. öld (Jón Samsonarson 1964:214):

Harpan bar snjóa
hauðrið á allt,
heylausir óa
við henni snjallt.
Þó seint komi lóa,
samt er vor kalt.

Þegar kemur fram á 19. öld fara menn að líta til hörpu með augum rómantíkurinnar og hún verður persónugervingur vorsins. Farið var að kalla einmánuð og hörpu börn góu og þorra, sbr. vísuna

Þorri og góa grálynd hjú
Gátu son og dóttur eina:
Einmánuð sem bætti ei bú
og blíða Hörpu að sjá og reyna.

Jón Árnason vísar þessu á bug í þjóðsögum sínum sem hverjum öðrum ruglingi. Þorri og góa hafi verið feðgin (sbr. grein um góu). Hann getur þess að yngismenn hafi átt að fagna einmánuði en yngismeyjar hörpu á sama hátt og húsbændur og húsfreyjur fögnuðu þorra og góu (Jón Árnason II:551). Árni Björnsson þjóðháttafræðingur telur hér um misskilning að ræða hjá Jóni. Það voru piltar sem áttu að fagna hörpu sem persónugervingi yngismeyja (Árni Björnsson 1993:41). Um þetta orti Jón Thoroddsen (1919:82):

Ríður Harpa í tún
roðar röðull á brún
rósum stráir um löndin og æginn,
vakna sveinar við það
glaðir hlaupa á hlað
Hörpu vilja þeir leiða í bæinn.

Margvíslegan fróðleik um hörpu er að finna í bókinni Saga daganna eftir Árna Björnsson.

Heimildir
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
  • Árni Björnsson. 1993. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík.
  • Jón Árnason. 1966. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. II. Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík.
  • Jón Samsonarson. 1964. Kvæði og dansleikir. II. Almenna bókafélagið, Reykjavík.
  • Jón Thoroddsen. 1919. Kvæði. Kaupmannahöfn.