heita eftir eða heita í höfuðið á

Á Íslandi hefur um aldir ríkt sterk hefð í nafngjöfum þótt hún eigi nú um stundir nokkuð í vök að verjast. Nöfn barna voru, og eru enn, mjög oft sótt í fjölskylduna, oftast fyrst til afa og ömmu, en einnig til foreldra, nákominna ættingja eða vina.

Það er vel þekkt að ekki er sama hvort einhver heiti í höfuðið á einhverjum eða eftir einhverjum. Ef drengur fær t.d. nafn afa síns, sem er látinn, heitir hann eftir honum en ef afinn er á lífi er sagt að drengurinn heiti í höfuðið á afa sínum. Þeir eru í báðum tilvikum nafnar og á sama hátt eru stúlka og sú sem hún heitir eftir eða í höfuðið á nöfnur.

Einnig þekkist um þetta að einhver heiti utan í einhvern annan og þá alltaf lifandi mann. Í talmálssafni Orðabókarinnar virðist sú notkun helst tengjast Vestfjörðum eftir þeim svörum að dæma sem fengust við fyrirspurnum um orðasambandið.

Aldur orðasambandanna er mishár samkvæmt söfnum Orðabókarinnar. Dæmi um að heita eftir einhverjum þekkjast a.m.k. frá því á miðri 17. öld. Úr annálum er þessi dæmi:
  • Sú kvinna lét son sinn, ... Odd heita eptir honum.
  • og margan bað hann láta heita eptir sér á því ári.
Ekki fundust eldri dæmi en frá upphafi 20. aldar um að heita í höfuðið á einhverjum. Í Ritsafni Kristínar Sigfúsdóttur stendur t.d.:
  • Það var gömul trú, að þegar foreldrarnir æsktu sér ekki fleiri barna, þá ætti að láta síðasta barnið heita í höfuð þeirra beggja.
Um sambandið að heita utan í á Orðabókin aðeins eitt dæmi úr bók eftir Guðmund Hagalín og styður það vestfirskan uppruna þess:
  • Vilhelmína sagði hann, eins og hún systir mín sálaða, sem hét utan í kaupmannsmaddömuna í Brimmnesvík.

Heimildir
  • Ritmálssafn OH
  • Talmálssafn OH