helgur - heilagur

Orðin heilagur og helgur eru bæði gömul í málinu, þau virðast oftast nánast samheiti en stundum er ekki hægt að víxla og nota annað í stað hins. Upprunalega var um eitt lýsingarorð að ræða. Helgur er samandregin mynd af heilagur, orðin til við brottfall sérhljóðs í þolfalli og þágufalli eintölu og allri fleirtölunni nema eignarfalli og sömuleiðis í veiku beygingunni en brottfallinu fylgdi einhljóðun tvíhljóðsins ei í e. Til að skýra þetta betur er rétt að hafa í huga að heilagur beygðist til forna eftir sama beygingarflokki og lýsingarorðið gamall. Þetta sést best ef beygingardæmin eru borin saman:

Eintala Fleirtala
gamall heilagr gamlir helgir
gamlan helgan gamla helgir
gömlum helgum gömlum helgum
gamals heilags gamalla heilagra

                       
Þannig er nefnifall eintölu heilagur maður en nefnifall fleirtölu helgir menn. Síðar gerist það svo við áhrifsbreytingu frá nefnifalli eintölu og eignarfalli eintölu og fleirtölu að öðrum myndum án brottfalls var skotið inn í beygingardæmið heilagur. Sömuleiðis verða áhrifsbreytingar í helgur:

heilagur helgur heilagir helgir
heilagan helgan heilaga helga
heilögum helgum heilögum helgum
heilags helgs heilagra helgra

               
Það er að segja, komin eru upp tvö sjálfstæð lýsingarorð eins og við þekkjum vel úr síðari alda máli. Hann er heilagur maður og hann er helgur maður merkir hið sama.

Heilagur er gamalt orð í norrænum málum og hefur líklegast borist úr vesturgermönsku til Norðurlanda þar sem viðskeytið -ag- var lítt notað við orðmyndun í norrænum málum. Orðið var til í fornháþýsku sem heilag, í fornsaxnesku sem hêlag og fornensku sem hælig. Menn hafa velt fyrir sér hvers vegna orðið finnst ekki í gotnesku biblíuþýðingu Wulfila biskups frá 4. öld eftir Krist. Flestir eru sammála um að Wulfila hafi með vilja sniðgengið *hailags, eins og myndin hefði átt að vera (stjarnan sýnir að myndin er endurgerð), en valið í þess stað weihs ‘heilagur’ sem er af sömu rót og íslensku orðin vígja ‘helga’ og ‘helgur staður’. Lýsingarorðið heilagur er sennilega nafnleitt í germönsku af *haila- ‘heill, hamingja’, sbr. fornháþýsku heil ‘blessun, heill’ og fornensku hæl ‘góður fyrirboði, gæfa’. Af lýsingarorðinu eru síðan mynduð með viðskeytum nafnorðið heilagleikur, yngra einnig heilagleiki, lýsingarorðið heilaglegur og atviksorðið heilaglega.

Öll Norðurlandamálin hafa varðveitt lýsingarorðið, hvert í sinni mynd, færeyska heilagur, danska hellig, sænska helig, norska hellig og nýnorska heilag.

Í orðabók Johans Fritzners yfir forna málið (I:755B756) eru gefin upp tvenns konar merkingarsvið orðsins heilagr en þó náskyld. Annars vegar ‘helgur, sem helgi hvílir á’ og hins vegar ‘e-ð sem svo mikil helgi hvílir á að ekki er leyfilegt að eigna sér hlut af eða saurga á einhvern hátt’. Síðari merkingin virðist ekki hafa verið mjög algeng og helst vera notuð í lagamáli. Þó má nefna dæmi úr Eyrbyggja sögu (1934:17) sem skýrir þessa notkun: „vollinn kallar hann spilltan af heiptarblóði, er niðr hafði komit, ok kallar þá jorð nú eigi helgari en aðra ...“.

Heimildir:

  • Eyrbyggja saga, 1934. Einar Ól. Sveinsson og Matthías Þórðarson gáfu út. Hið íslenzka fornritafélag. Reykjavík.
  • Fritzner, Johan, 1954. Ordbog over Det gamle norske Sprog. I. Nytt uforandret opptrykk av 2. utgave (1883--¬¬1896). Oslo, Tryggve Juul Møller forlag.

 

Guðrún Kvaran
Júní 2011