milli heys og grasa

Harpa er fyrsti mánuður í sumri, hefst sumardaginn fyrsta og endar fjórum vikum síðar. Auk mánaðarheitisins kemur fyrir annað nafn eða öllu heldur orðalag um þetta skeið vorsins eða upphaf sumars, tíminn milli heys og grasa:

Lokadagur 11. maí. Þessi tíð er kölluð milli heys og grasa og stuðst við sjónarmið sauðkindarinnar: sú tíð þegar hey eru þrotin en grös ekki sprottin.

Þessar línur eru úr upphafi 3. kafla Kristnihalds undir Jökli eftir Halldór Laxness. Honum hefur verið þetta orðalag nokkuð tamt eða hugstætt, því að það kemur víðar fyrir í verkum hans, t.d. í Íslandsklukkunni (Hið ljósa man, bls. 245) og í Paradísarheimt (bls. 9).

Ekki er svo að skilja að Kiljan sé höfundur þessa orðalags. Það kemur víða fyrir og er miklu eldra í málinu en ofangreind dæmi. Elsta heimild Orðabókar Háskólans (OH) um þetta er frá síðari hluta 17. aldar, í málsháttasafni Guðmundar Ólafssonar (d. 1695). Síðan hefur OH dæmi um þetta frá 19. öld og fram á síðustu áratugi 20. aldar. Sjá Ritmálsskrá OH.

Nokkur dæmi um orðalagið [að vera] milli heys og grasa eru í talmálssafni OH. Þau sýna að þetta hefur verið vel þekkt víða um land, en dæmin eru þó strjál, koma einkum af Suður- og Vesturlandi, nánar til tekið austan úr Mýrdal, vestur um land og vestur á firði. Þetta er tíminn þegar farið er að vora, hætt er að gefa skepnum inni, en lítill gróður kominn, svo að brugðið gat til beggja vona, ef bændur voru komnir í þrot með hey og tíðin stirð, „sá tími … þegar fé fellur sem örast“, eins og Halldór Laxness segir í Hinu ljósa mani.

En ekki er eingöngu „stuðst við sjónarmið sauðkindarinnar“. Heimildarmaður úr Rangárþingi kemst svo að orði: „Milli heys og grasa var sá tími nefndur, er byrjað var að beita út kúm á vorin.“ Og heimildarmaður úr Hnappadalssýslu segir í bréfi: „Það þótti slæmur burður sem dróst til maíloka. Þá var sagt að kýrin bæri milli heys og grasa, sem sé, þegar helst átti að hætta við innigjöf, en ótryggt að nægur gróður væri kominn fyrir nýborna kú.“

Heimildir

  • Halldór Kiljan Laxness. Hið ljósa man. Reykjavík: Helgafell 1944.
  • Halldór Laxness. Paradísarheimt. 2. Útgáfa, 1. Prentun. Reykjavík: Vaka–Helgafell 1986.
  • Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans, www.arnastofnun.is
  • Talmálssafn Orðabókar Háskólans.

Fleiri orðapistlar