hindurvitni

Í nútímamáli er nafnorðið hindurvitni jafnan hvorugkyns og oftast haft í fleirtölu. Langalgengasta merking þess er ‘fánýt eða heimskuleg hjátrú, bábylja’ eins og fram kemur í eftirfarandi dæmum:
 • eg veit ecki í hverjum hjátrúar --- edur hindurvitna --- skóla þeir hafa lært (18. öld)
 • sagnir þær, sem um það hljóða, hvað fyrirburðirnir tákni, hefir verið kallað ýmsum nöfnum, t.d. bábiljur, hégiljur, hindurvitni. (19. öld)
 • Þrátt fyrir endalaus hindurvitni, trúarofsa og guðfræðisþvætting (20. öld)
Notkun og merking
Orðabækur tilfæra þó fleiri merkingar. Í Íslenskri orðabók (2002) er önnur merking orðsins sögð vera ‘verndargripur’ eða ‘lítilfjörleg gjöf’. Hvorttveggja mun að mestu horfið úr lifandi máli en um þetta eru til heimildir frá 18. og 19. öld. Einnig má geta þess að í talmálssafni Orðabókar Háskólans er að finna vitnisburði um að hindurvitni hafi verið haft um smáræði eða eitthvað smávægilegt, eins og í eftirfarandi dæmi:
 • Hvert einasta hindurvitni sem verslað er með er sett á nótu í versluninni.
Loks tiltekur Íslensk orðabók merkinguna ‘hrútspungur’ og er hún sögð staðbundin. Um þessa merkingu finnast einnig heimildir í talmálssafninu og eru þær allar af Suður- og Austurlandi. Heimildarmaður úr Vopnafirði tilfærir m.a. eftirfarandi vísu sem dæmi um þessa notkun orðsins:

Hindurvitnum hampar þú
og hárin af þeim skefur
en hún Guðlaug faktors frú
fordóm á þeim hefur.

Saga og uppruni
Nafnorðið hindurvitni er gamalt í málinu og kemur fyrir í fornum textum, að því er virðist í svipaðri merkingu og nú tíðkast:
 • Eg hefi syndir gjört í hindurvitni og í forneskju, í átrúnaði röngum. (Ísl. hómilíubókin)
 • Marga hindurvitni hafið þér þá er eg sé til einskis koma. (Grettis saga)
 • Hann bannaði ok alla hindrvitni þá er fornir menn höfðu tekit af tunglkvámum eða dægrum eða eigna daga heiðnum mönnum eða goðum. (Jóns saga ins helga)
Hér er þó sá munur á að í fornu máli er hindurvitni jafnan kvenkyns en ekki hvorugkyns og eins virðist merkingin bundnari villutrú eða heiðnum siðum en síðar varð.

Ásgeir Blöndal Magnússon (1989) telur orðið myndað af nafnorðunum hindur – dregið af sögninni hindra – og vitni ‘vitnisburður, merki’ og er þar á svipuðum slóðum og Páll Vídalín (1854; 182) sem álítur að hindurvitni sé „vitund eður kunnátta sú er hindrar réttan kristindóm“. Peter Foote er á öðru máli í skýringum við útgáfu sína á Jóns sögu ins helga. Hann segir:

[L]íklegra er að forliðurinn sé lo. hindr (notað einungis í miðstigi og efstastigi í nútímaíslensku: hindri, hinstur); það er af sömu rót og so. hindra, en merkingarlega skylt gotnesku hintar „handan“, ensku hinder „aftari“, þýsku hinter „fyrir aftan, að baki“. Hindrvitni er þá réttilega þýtt af Guðbrandi Vigfússyni í An Icelandic-English Dict. sem „hinder-knowledge“, þ.e. þekking að baki eða handan veruleikans, leyndir hlutir, hjátrú. (Biskupa sögur I, s.hl. bls. 209 nmgr 4)

Foote gengur einnig útfrá því að síðari liðurinn, -vitni, sé upphaflega kvenkyns og hindurvitni eigi sér því hliðstæðu í kvenkynsorðinu forvitni.

Kvenkyns -vitni hlýtur að vera í ætt við sögnina vita og skyld orð en sá frændgarður er allfjölskrúðugur að merkingu og til hans teljast m.a. orð sem tengjast þekkingu, forboðum, spádómum og jafnvel göldrum; nefna má fornyrðið vitki ‘galdramaður’ sem nýlega skaut upp kolli í nútímanum í íslenskri þýðingu Hringadróttinssögu Tolkiens.

Engum getum skal hér að því leitt hvernig hindurvitni fór að merkja ‘hrútspungur’ á sunnan- og austanverðu landinu.

Heimildir
 • Söfn Orðabókar Háskólans.
 • Ásgeir Blöndal Magnússon 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Reykjavík.
 • Biskupasögur I. 2003. Síðari hluti – Sögutextar. Sigurgeir Steingrímsson, Ólafur Halldórsson og Peter Foote gáfu út. Íslensk fornrit XV. Hið íslenska fornritafélag. Reykjavík.
 • Íslensk orðabók. 2002. Ritstj. Mörður Árnason. Edda. Reykjavík
 • Páll Vídalín. 1854. Skýringar yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast. Reykjavík.
 
Aðalsteinn Eyþórsson
janúar 2004