hlátur

Orðið hlátur er gamalt í málinu og til í öllum grannmálunum. Í færeysku er talað um látur, í norsku um lått, låtter og lætter, í dönsku um latter, í ensku um laughter og í þýsku um Gelächter.

Ýmis orð eru tengd hlátri eins og sögnin að hlæja og nafnorðið hlægi 'aðhlátursefni', lýsingarorðin hlægilegur og hlálegur og sögnin hlægja 'kæta, vekja hlátur'.

Menn geta hlegið á ýmsa vegu. T.d. er talað um ruddahlátur, stórkarlahlátur, kuldahlátur, tröllahlátur, illkvittnishlátur, illgirnishlátur ,tryllingshlátur, heldur í neikvæðri merkingu, en einnig um gleðihlátur, galsahlátur, glettnishlátur, sólskinshlátur, gáskahlátur, kátínuhlátur, feginshlátur, heilsubótarhlátur í jákvæðri merkingu.

Orðið hlátur finnst í mörgum málsháttum eins og t.d.
  • að háði né hlátri hafðu aldrei gest né gangandi
  • glatan er fyrir góðum hlátri
  • kaldur hlátur kemur af hryggð eða reiði
  • hlátur æskunnar veldur oft tárum ellinnar.
Hlátur kemur fyrir í margskonar föstum orðasamböndum. Talað er um að einhver sé að deyja úr hlátri, springa af hlátri, rifna úr/í hlátri eða farast úr hlátri. Menn hlæja þurrum hlátri, köldum hlátri, holum hlátri. Óstöðvandi hlátur getur sett að mönnum, hláturinn sýður niðri í einhverjum, hlátur setur að einhverjum og sá hinn sami getur reynt að kreista niðri í sér hláturinn.