höfuðdagur

Höfuðdagurinn er samkvæmt gildandi tímatali 29. ágúst. Þann dag á Heródes konungur að hafa látið eftir konu sinni að Jóhannes skírari skyldi hálshöggvinn. Vitað er til að minningardagur um aftökuna hafi þekkst þegar á 5. öld bæði í Samaríu og Gallíu. Það var hins vegar páfastóll sem ákvað dagsetninguna 29. ágúst á 7. öld og nefndi daginn Decollatio Johannis sem merkir ,,afhöfðun Jóhannesar". Latneska nafnorðið decollatio er leitt af sögninni decollare 'hálshöggva', en collum á latínu er notað um háls á manni.

Sú þjóðtrú hefur lifað lengi að veður breytist á höfuðdag og haldist þannig næstu þrjár vikur. Árið 1700 var tímatali breytt. Þá fluttist ,,gamli" höfuðdagurinn yfir á 9. september og trúðu ýmsir á veðrabreytingar þann dag. Nú er dagurinn ávallt tengdur 29. ágúst. Trúnni á höfuðdaginn fylgdi bæði von og ótti. Mikilvægt þótti að hafa lokið heyskap fyrir höfuðdag ef tíð var góð en einnig lifðu margir í þeirri von að úr rættist við höfuðdag ef sumarið hafði verið vætusamt.

Íslenska heitið höfuðdagur virðist fyrst koma fyrir í bréfi frá 15. öld en þó þannig að nafnið var tengt Jóhannesi skírara, þ.e. ákveðinn verknaður fór fram,,á höfuðdaginn Johannis baptiste". Þessi siður hélst lengi. Liðið var fram á 19. öld áður en farið var að nefna daginn án tilvísunar til Jóhannesar. Í Almannaki Þjóðvinafélagsins frá 1884 stendur þessi skýring:
  • 29. Augustus er kallaður höfuðdagur; hann var fyrrum haldinn heilagur í minningu þess, að þann dag átti Heródes konungur Antipas að hafa látið hálshöggva Jón skírara, árið 31. e. Kr.

Heimildir
  • Ritmálsskrá OH
  • Árni Björnsson. 1993. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík.