hókus-pókus

Notkun og merking
Töfraformúlan hókus-pókus er þekkt víða um heim í ýmsum myndum og hefur lengi þótt ómissandi hvar sem sjónhverfingar og töfrabrögð eru höfð í frammi. Töframaðurinn mælir þá þessi orð um leið og hann lætur eitthvað hverfa eða breytir einum hlut í annan. Stundum er látið nægja að segja „hókus-pókus“ en oft er einhverju bætt við, t.d. „fílíókus“ eða „pílarókus“ til að gera töfrana enn áhrifameiri.

Stundum er hókus-pókus líka notað eins og nafnorð og haft um sjálf töfrabrögðin:

  • ég vil helst ekki vera með svona hókus pókus fyrir framan nefið á kúnnunum

Eins er það stundum haft um aðferðir eða úrræði sem þykja minna á sjónhverfingar eða loddarabrögð, t.d. í viðskiptum og stjórnmálum, og líkist þá helst lýsingarorði:

  • Með einhverri hókus pókus aðferð hefur [ráðherra] sagt að þetta þýði engan útgjaldaauka
  •  ... fékk hann þarna ókeypis ráðgjöf ... í skattalegum hókus pókus trixum
  • áætlanirnar voru „hókus-pókus“ áætlanir

Saga og uppruni
Hókus-pókus er af erlendum uppruna. Haft er fyrir satt að upphaflega sé þetta afbökun á latnesku orðunum hoc est corpus (meum) ‘þetta er líkami (minn)’ sem heyra til við útdeilingu altarissakramentis í kaþólskri messu. Í ensku og þýsku kemur orðið fyrir í heimildum frá 17. öld og í dönsku í ritum frá 18. öld. Elsta íslenska dæmið sem Orðabók Háskólans er kunnugt um er úr vísu sem sögð er ort kringum 1800 um uppnefni sem þá voru á kreiki á Austurlandi:

Njólafót ég nefna má.
Nýtur Fjallskerðingur,
Hókuspókus honum hjá
hæverskur þá syngur.

Skrásetjarinn (Sigmundur M. Long, 1841-1926) segir síðan:

Er svo sagt, að Hókuspókus (sem þýðir leikari eða missýningamaður) væri Einar í Mýnesi ... (Að vestan II:53)

Það er eftirtektarvert að hér er hókuspókus haft í merkingunni ‘sjónhverfingamaður’. Þessi merking er kunn úr 17. aldar ensku en virðist hvorki hafa þekkst í þýsku, dönsku né öðrum norrænum málum.

Heimildir

  • Söfn Orðabókar Háskólans.
  • Að vestan. Þjóðsögur og sagnir II. Akureyri 1955.
  • Íslenskar, enskar, þýskar og norrænar orðabækur.
Aðalsteinn Eyþórsson
september 2002