höndla

Sögnin höndla er gamalgróin í íslensku og kemur fram í ýmsum merkingarafbrigðum. Skyldleiki sagnarinnar við nafnorðið hönd kemur skýrt fram í merkingunni `ná í, grípa, handsama', eins og í þessu dæmi úr 8. Passíusálmi Hallgríms Péturssonar:

Talaði Jesús tíma þann
til við óvini sína,
sem komnir voru að höndla hann.
Heyrum þá kenning fína.

Tengslin við hönd má einnig greina í merkingunni `fá og njóta, hreppa', sem m.a. kemur fram í samböndum eins og höndla gæfuna og höndla hnossið. Merking sagnarinnar getur í þriðja lagi hnigið að því hvernig farið er með einhvern eða eitthvað, en í nútímamáli kemur sú merking þó fremur fram í sögninni meðhöndla.

Fyrr á tíð var notkun sagnarinnar höndla ekki síst bundin merkingunni `versla' en þar er um að ræða tökumerkingu sem mótast hefur af samstofna sögn í skyldum málum, einkum handle í dönsku og handeln í þýsku. Önnur tökumerking úr dönsku, sem fram kemur í ritheimildum fyrri alda en er nú úr sögunni, er `fjalla um', í dæmum eins og frásögnin höndlar um þessa atburði.

Segja má að mjög hafi dofnað yfir öllum þessum merkingum sagnarinnar nema helst merkingunni `fá og njóta, hreppa', sem reyndar er nokkuð bundin ákveðnum samböndum. Á hinn bóginn sækir sögnin höndla nú fram af miklum krafti á nýju merkingarsviði, einkum í talmáli en einnig að nokkru marki í ritmáli, eins og eftirfarandi dæmi, sem fengin eru af Netinu, vitna um:
  • Við þurfum að hugsa um framtíðina og hvernig við getum höndlað hana sjálf.
  • Opinberir aðilar sem eiga að höndla þessi mál fá ekki það nauðsynlega aðhald sem allir þurfa á að halda.
  • Það var hreint með ólíkindum hvernig hún höndlaði sjúkdóminn.
  • Ég veit ekki hvernig ég kem til með að höndla skrifstofuvinnu.
Þá merkingu sem hér um ræðir virðist mega sameina í skýringunni `fást við e-ð (á árangursríkan hátt), ráða við e-ð'.

Hér er nærtækt að hugsa sér áhrif frá ensku sögninni handle, sem hefur hliðstæða merkingu. Mörgum kann að þykja þetta skýr vitnisburður um áhrifavald enskrar tungu í íslensku nú á dögum. En ekki er víst að um einhliða ensk áhrif sé að ræða því að eldri merkingarafbrigði sagnarinnar standa nærri þessari merkingu. Ekki er langur vegur frá merkingunni `fá og njóta, hreppa', sem áður er getið, né heldur frá þeirri merkingu sem býr í sögninni meðhöndla. En hvað sem því líður hefur þessi nýja merking rutt sér til rúms á undraskjótum tíma og hún er svo ný af nálinni að hennar sér enn ekki stað í íslenskum orðabókum.