hrogn

Flestir kannast vel við hrogn sem oftast er unnt að kaupa úr fiskborðinu í febrúarmánuði. Það eru eggin inni í sekknum sem nefnast hrogn áður en fiskurinn hefur gotið en eftir það kallast þau gota, gytja eða gýta.

Færri kannast við að sekkurinn utan um eggin sé kallaður hrognabrækur eða hrognabuxur og enn færri tala um hrognabrók í eintölu en þó þekkist það eitthvað. En fleiri heiti eru til þótt þessi virðist algengust.

Í ritinu Íslenskir sjávarhættir eftir Lúðvík Kristjánsson (1985:435) er kafli um hrogn. Fyrir utan hrognabrækur og hrognabuxur nefnir hann orðin hrognabú, hrognabelg og hrognasekk en einnig kýtu og krummabrækur úr smáfiski. Öll eiga þessi heiti við sekkinn með hrognunum í.

Hulstrið eða sekkurinn utan um hrognin skiptist í tvennt og er hvor helmingur oftast nefndur skálm, þ.e. einar hrognabuxur hafa tvær skálmar rétt eins og venjulegar buxur. Fyrir utan skálm eru notuð orðin hrognaskálm, gotuskálm, skíði og hrognaskíði og er svolítið misjafnt eftir landshlutum hvaða orð er tíðkast.

Orðið hrogn er samnorrænt (Ásgeir Blöndal Magnússon 1989:376). Í færeysku, nýnorsku og dönsku er talað um rogn, í sænsku um rom. Á eldri stigum vesturgermanskra mála hefur orðið einnig verið notað því að heimildir eru um (h)rogo, rogan í fornháþýsku, rögen í lágþýsku og roge og roch í miðhollensku.

Heimildir
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
  • Lúðvík Kristjánsson. Íslenzkir sjávarhættir.
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík. 
Febrúar 2008

Fleiri orðapistlar