hugtak

Í íslensku hafa löngum verið smíðuð ný orð af innlendri rót um ný hugtök. Þegar vel tekst til hættum við fljótt að skynja að um nýyrði sé að ræða og orðið verður sjálfsagður tákngervingur þeirrar merkingar sem í því er fólgin.

Um þetta er sjálft orðið hugtak, gott dæmi. Orðið kemur fyrst fram í ritmálssafni Orðabókar Háskólans á síðustu áratugum 19. aldar. Dæmi um notkun orðsins í Hugsunarfræði Eiríks Briem sýnir að það er myndað sem jafnheiti við danska orðið begreb og hefur að nokkru leyti mótast af samsetta orðinu hugmynd sem þá var orðið rótgróið í málinu:

Hugmynd verður það, sem vjer köllum hugtak (Begreb), þegar það er nákvæmlega ákveðið, hvað í henni liggur.

Reyndar kemur fram að orðið hugmynd hefur verið notað í sömu merkingu fyrr á öldinni, t.d. í Fjölni. Í Almennri sálarfræði víkur Ágúst H. Bjarnason að sambandi þessara tveggja orða og rökstyður hvers vegna hann velur orðið hugtak:

og því nefni ég það ekki hugmynd, heldur hugtak, því að það er eins og hugurinn taki þessa ákveðnu eiginleika taki, með því þannig að greina þá frá öðrum eiginleikum og gefa þeim sérstakt heiti.

Guðmundur Finnbogason leiðir hugann að myndun orðsins í ritinu Hugur og heimur:

Eg veit ekki með vissu hver myndað hefir orðið hugtak, en það er vel gert og viturlega. Það er sniðið eftir orðinu handtak.

Í Tímariti Verkfræðingafélags Íslands árið 1919 er einnig staldrað við skyldleika orðanna hugtak og handtak, þar sem vikið er að sambandi orða og hugtaka:

vjer þurfum ekki fremur eitt orð fyrir hvert hugtak, en sína hönd fyrir hvert handtak.

Nú er orðið hugtak löngu orðið fast í sessi og myndun orðsins veldur okkur ekki lengur heilabrotum. En samband orða og hugtaka er sígilt umhugsunarefni, jafnt nú og fyrir nærri hundrað árum, þegar Guðmundur Finnbogason komst svo að orði í ritinu Hugur og heimur:

Enginn skynjar annars hugtök, en orðin má skynja. Þau eru eins konar ávísanir, er menn gefa hver á annars huga.