hundadagar

Elsta dæmi í ritmálssafni Orðabókar Háskólans um orðið hundadagar er úr kvæði frá 18. öld eftir Einar Sæmundsson föður Látra-Bjargar. Það hefst svona:

Fljóð til vegar fekk sig bært
frá ,,Meðreiðings“sögum,
sólar þegar skinið skært
skein á Hundadögum.

Orðið kemur fyrir í latnesk-íslenskri orðabók Jóns Árnasonar biskups, Nucleus latinitatis, frá 1738 í skýringu við orðið prodomus. Þar stendur „Nordann-vindar sem blasa i eina Viku, adur enn Hundadagarner byriast“ (1994:256). Orðið er þó mun eldra í íslensku máli. Árni Björnsson bendir á að hundadagar séu nefndir í rímtali Arngríms Jónssonar lærða og Guðbrands Þorlákssonar 1597 og einnig nefnir hann 17. aldar dæmi (1993:187).

Talið er að hugtakið hundadagar sé komið til Rómverja frá Grikkjum, en á latínu eru þessir dagar nefndir diēs caniculāres (canis á latínu merkir ‘hundur’), og það hafi borist úr latínu sem tökuþýðing í önnur evrópumál. Á dönsku er t.d. talað um hundedage og í þýsku um Hundstage.

Hundadagar ná yfir tiltekinn tíma sumars. Nú er oft talið að þeir hefjist 13. júlí á Margrétarmessu og að þeim ljúki 23. ágúst. Sú venja tíðkast hérlendis. Áður var miðað við að hundadagar hæfust 23. júlí og er svo enn t.d. í Danmörku. Nafnið er dregið af því að stjarnan Síríus fer að sjást á suðurhveli jarðar í júlí en hún er ein stjarnanna í stjörnumerkinu Stórahundi. Síríus nefnist á latínu Canicula, en það heiti var þegar á 18. öld þýtt sem ‘hundastjarna’ t.d. í Nucleus latinitatis (1994:23).

Margir halda að hugtakið hundadagar sé komið af viðurnefni Jörundar hundadagakonungs (Jørgens Jürgensens) sem gerði stjórnarbyltingu og ríkti yfir landinu frá 25. júní til 22. ágústs 1809. Svo er þó ekki heldur fékk hann viðurnefnið af því að stjórnartíð hans lenti að mestu á hundadögum.

Heimildir:
  • Árni Björnsson. 1993. Saga daganna. Reykjavík, Mál og menning.
  • Jón Árnason. 1994. Nucleus latinitatis. Ný útgáfa. Guðrún Kvaran og Friðrik Magnússon sáu um útgáfuna. Orðfræðirit fyrri alda III. Reykjavík, Orðabók Háskólans.

Guðrún Kvaran
ágúst 2008
Fleiri orðapistlar