hvippur og hvappur

Allir kannast við orðasambandið út um hvippinn og hvappinn í merkingunni 'hér og þar', 'víðsvegar'. Ekki er víst að allir viti hvað orðin hvippur og hvappur merkja.

Orðið hvippur merkir 'duttlungur, einkennilegt uppátæki' og er skylt nafnorðinu hvippi 'smálaut, grösugur engjablettur' og lýsingarorðinu hvippinn 'viðbrigðinn, fælinn'. Til eru orðasamböndin snúast (eða vera) eins og hvippi í kopp 'vera óstöðugur', vera eins og hvippur í kopp í sömu merkingu og vera eins og hvippi í hvers manns koppi 'skipta sér af öllu'.

Orðið hvappur merkir 'lægð, dalverpi' og er skylt nafnorðinu hvapp '(gras)dæld, laut, dalskvompa' og sögninni að hvappast 'koma óvænt fyrir'. Hugsanlegt er merkingarlega að orðasambandið hafi upprunalega verið út um hvippann og hvappinn en fyrra orðið síðan lagað sig að hinu síðara.

En til eru fleiri leiðir til að orða merkinguna 'hér og þar, út um hvippinn og hvappinn'. Sumir tala um að vera út um trintur og tranta eða að vera út um trintinn og trantinn. Algengt virðist að tala um að vera út um alla tranta. Orðið trantur merkir hér 'hæð' en karlkynsorðið trintur er skylt orðinu trinta 'hæðar- og klettastrýta, klettadrangur' og virðist aðeins notað í þessu sambandi .

Einnig er notað að vera út um trissur og tranta og vera út um tær og trissur. Trissa er 'hjól með skoru fyrir taug að leika í'.

Þá finnast dæmi um að vera út um skott og skanka og vera út um torgir og trissur. Orðið torg, sem langoftast er notað í hvorugkyni, er þó líka til í kvenkyni og er myndin torgir þá þolfall fleirtölu