hvítasunna

Hvítasunnan er kirkjuhátíð sem hefst sjöunda sunnudag eftir páska til minningar um að stofnuð var kristin kirkja og heilagur andi kom yfir postulana. Í fornu máli var orðið hvítadagar notað um sunnudaginn og vikuna þar á eftir en sunnudagurinn nefndur hvítadrottinsdagur, hvítasunnudagur eða drottinsdagur í hvítadögum.

Orðið hvítasunna er líklegast tökuorð úr fornensku hwīta sunnandag en í dag er dagurinn nefndur Whitsun á ensku. Í fornsænsku voru orðin hvitasunnodagher, í forndönsku hvidesöndag og í miðlágþýsku witte sondach notuð um fyrsta sunnudag eftir páska. Í færeysku heitir hvítasunnudagur hvítusunna og hvítusunnudagur, í nýnorsku kvitsunn og kvitsunndag. Danska og sænska halda sig við pinse sem er tökuorð í fornlágþýsku pinkoston sem aftur er tökuorð úr grísku pentēkostē ‘fimmtugasti dagur (eftir páska)’.

Hvíti liturinn í heitinu er upprunalega sóttur til þess að þeir fullorðnir sem nýskírðir voru til kristinnar trúar áttu að ganga í hvítum klæðum, hvítavoðum, fyrstu vikuna eftir skírn. Engilsaxneska kirkjan hélt sig við að skírn færi fram á hátíð heilags anda, hvítasunnu.

Ýmiss konar hjátrú tengist hvítasunnudegi, m.a. að þann dag sé ekki ráðlegt að leggja sig þar sem slen muni þá fylgja út árið. Aðeins á hvítasunnudag mun rjúpan óhult fyrir fálkanum.

Heimildir:
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Bls. 400. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
  • Árni Björnsson. 1993. Saga daganna. Bls. 96–100. Reykjavík, Mál og menning. 
  • Fritzner, Johan. 1891. Ordbog over det norske Sprog. II. Bls. 142. Den norske forlagsforening, Kristiania.
  • Politikens etymologisk ordbog. Danske ords historie. 2000. Politikens forlag, København.