hyrna og ferna

Orðið hyrna er skylt orðinu horn og hefur verið notað í margs konar merkingu, m.a. um hvassa fjallstinda eins og ýmis örnefni bera vitni um (Skarðshyrna og Lýsuhyrna) og um klúta eða sjöl, einkum þau sem eru þríhyrnd (sbr. samsetta orðið þríhyrna) eða brotin í horn.

Þegar fyrst var farið að selja mjólk í pappaumbúðum upp úr miðri 20. öld þurfti að gefa þessum umbúðum nafn. Í upphafi höfðu umbúðirnar aðra lögun en nú er: hornin voru fjögur og hliðarnar þríhyrndar. Var stungið upp á að kalla þær hyrnur. Þannig fékk orðið hyrna nýja merkingu sem bættist við þær sem fyrir voru og um tíma hefur það líklega verið meðal algengustu orða í daglegu tali.

Mynd af drykkjarhyrnum
Hyrnur svipaðar íslenskum mjólkurhyrnum sem teknar voru í notkun 1958
(Mynd frá Tetra Pak)

Seinna breyttist lögun mjólkurumbúðanna og þær urðu kassalaga. Þá fæddi hin nýja merking orðsins hyrna af sér nýyrðið ferna, sem er skylt ýmsum orðum með forliðinn fer- 'fjór-' (ferhyrndur, ferfaldur).

Mynd af mjólkurfernu

Íslensk mjólkurferna
(Mynd frá Mjólkursamsölunni)

Orðið ferna er ekki í elstu útgáfu Íslenskrar orðabókar (1963) en í nýjustu útgáfunni (2002) er gefin merkingin 'kassalaga ílát (úr vatnsheldum pappa)'. Nokkur dæmi eru um orðið í söfnum OH, bæði ritmálssafni og textasafni, öll tiltölulega ung. Þetta nýja orð hefur ekki orðið síður algengt en hið fyrra því ýmsar aðrar drykkjarvörur en mjólk eru nú framleiddar í fernum.

Þótt hvort orð um sig feli í sér skírskotun til lögunar umbúðanna, hyrnan með þrístrendar hliðar og fernan með ferstrendar, má finna dæmi þess að bæði orðin séu notuð um drykkjarumbúðir úr pappa án tillits til lögunar þeirra:
  • stúlka frá okkar plássi hlaut 3. verðlaun í keppni um myndir sem fara á mjólkurhyrnur og eru í tengslum við málshætti. (Tíðis - fréttavefur, 10.5.2004)
  • Fyrst var farið og mjólkurhyrnur settar í gám [og] síðan lá leiðin upp á Valhúsahæð (Vefsíða Leikskólans Sólbrekku, 15.10.2004).
  • Í fyrstu var fernan þríhyrningslaga. (Vísindavefurinn, 20.12.2002)
Þarna er orðið mjólkurhyrna notað þótt það hljóti að vísa til ferstrends íláts miðað við aldur dæmanna og í síðasta dæminu sést vel að orðið ferna er notað þrátt fyrir að umræðan beinist að "þríhyrningslaga" umbúðum. Ekki er ólíklegt að aldur málnotenda hafi áhrif á orðavalið. Ungt fólk hefur ekki vanist öðru heiti á pappaumbúðum fyrir ýmiss konar drykki en orðinu ferna og þekkir jafnvel ekki orðið hyrna í þessari merkingu. Þeir sem eldri eru og þekktu mjólkurhyrnur af eigin raun vöndust því að kalla umbúðirnar hyrnur og hafa tilhneigingu til nota það orð áfram þótt lögun umbúðanna hafi breyst. Vel má því vera að sumir noti orðin sitt á hvað sem samheiti.

Heimildir
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
  • Textasafn Orðabókar Háskólans.
  • Gagnasafn Morgunblaðsins.
  • Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. Ritstjóri: Árni Böðvarsson. Menningarsjóður 1963.
  • Íslensk orðabók. 3. útg. Ritstjóri: Mörður Árnason. Edda 2002.