hyski

Þótt orðið fjölskylda sé vel þekkt í fornu máli en hefur ekki þar þá merkingu sem nú er algengust, þ.e. `foreldrar og börn þeirra; húsráðendur og afkomendur þeirra o.fl.' heldur var hin forna merking einkum `annir, margvísleg störf.'

En hvaða orð var notað um fjölskyldu? Hér er þess að gæta að hið forna íslenska samfélag var ekki sambærilegt nútímaþjóðfélagi og fjölskylduhugtakið í nútímaskilningi ekki til. Hins vegar voru til orð eins og nú um hina minnstu einingu samfélagsins, foreldra, börn þeirra og heimilisfólk. Eitt þessara orða er hyski sem í fornu máli var reyndar stafsett hýski. Þetta orð kemur víða fyrir í fornum ritum um foreldra, börn þeirra og hjú, - og reyndar í enn víðari merkingu um hóp sem er samstæður, tengdur eða bundinn með einhverjum hætti og hefur síður en svo nokkra niðrandi merkingu. Það er t.d. notað í Alexanders sögu um skyldulið höfðingja Serkja:
 • það var Serkjum títt í þann tíma, þeim er ríkastir voru, að hafa með sér til bardaga allt hýski sitt.
Í öðru fornu riti er svo komist að orði:
 • Heilagir guðspjallamenn - ok allt heilagt hýski guðs biði ok bæni fyrir mér.
Orðið hyski í fjölskyldu- eða heimilismannamerkingu helst í íslensku máli langt fram eftir öldum. Oddur Gottskálksson notar það t.d. í þýðingu sinni á Nýja testamentinu:
 • á sinni ættleifð og hjá sínu hyski og kynslóð (Mk 6, 4)
Í Biblíunni 1981 segir: "... með sínum frændum og heimamönnum" og í Vídalínspostillu er talað um Nóa og hans hyski. Í riti frá síðasta þriðjungi 18. aldar er orðið hyski beinlínis notað í fjölskyldumerkingu þar sem rætt er um manntalið frá 1703:
 • árið 1703 var fólksfjöldinn 50444, er útgjörði 7537 búandi fólk (hyski, familíur).
Í nútímamáli er hin neikvæða merking orðsins, `ómerkilegt fólk, ...' ráðandi að heita má. Hvenær hún kemur fyrst fram er hins vegar ekki ljóst. Hún æxlast sjálfsagt úr samböndum þar sem notuð eru neikvæð lýsingarorð með nafnorðinu:
 • hann og hans arma hyski (úr heimild frá 17. öld);
 • ótrútt og órólegt hyski (úr heim. frá 18. öld);
 • ... hvað bölvað hyskið getur logið (heim. frá miðri 19. öld);
 • fjölskyldur fátækra voru kallaðar hyski (frá miðri 20. öld).
Orðið hyski á sér samsvaranir í skyldum málum. Í færeysku er til orðið hýski og í nýnorsku hyske í merkingunni `fjölskylda, heimilisfólk'. Enn fremur er orðið til í fornensku og fornháþýsku í sömu eða svipaðri merkingu. Orðið er upphaflega leitt af lýsingaorði með viðskeytinu -sk- en stofninn hý- á skylt við hý- í hýbýli, hjú og hjón.

Heimildir
 • Ordbog over det gamle norske Sprog ... Andet Bind. ... Kristiania ... 1891.
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
 • Íslensk orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon. Rvík 1989.