Ingjaldur og Þorlákur

Stundum verða atvik til þess að nöfn manna tengjast einhverjum atburði og festast í orðasamböndum eða sem heiti á einhverju. Oft er erfitt að rekja hvaða persóna er að baki og fyrirspurnir bæta litlu sem engu við. Hér verða nefnd tvö slík nöfn, Ingjaldur og Þorlákur.

Björn M. Ólsen, málfræðingur og fyrsti rektor Háskóla Íslands, safnaði orðum úr mæltu máli nálægt aldamótunum 1900. Eitt þeirra orða sem hann skráði hjá sér var ingjaldur og skrifaði Björn við ‛grautur samanhrærður við flautir’. Við dæmið hafði hann skrifað ,,Önundarfjörður“.  Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans fundust tvö dæmi. Annað var úr Safni til sögu Íslands frá 1861:

kölluðu þeir [ [...]] vatnsgraut: Þorgarð, mjólkurgraut: Ingjald

,,Þeir“ eru þarna Vestfirðingar.  Hitt dæmið er úr orðabókarhandriti Hallgríms Schevings frá miðri 19. öld:

kölluðu þeir [ [...]] vatnsgraut: Þorgarð, mjólkurgraut: Ingjald

Engin önnur dæmi eru um vatnsgrautinn þorgarð en sem svör við fyrirspurnum um ingjald um ‛mjólkurgraut’ eru tvær borgfirskar heimildir í talmálssafni Orðabókarinnar.

Björn M. Ólsen hafði einnig skrifað hjá sér ,,þollákur“ án þess að geta landshluta. Merkinguna sagði hann ‛slóði’ og skrifaði við ‛þetta er fallegur þollákur’. Verður að líta svo á að merkingin sé neikvæð.  Í svari við fyrirspurn um þorlák var bent á að Símon Dalaskáld hefði fellt hug til konu nokkurrar sem síðar gekk að eiga mann sem hét Þorlákur. Símon lagði fæð á manninn, og reyndar fleiri Þorláka, og orti vísu þar sem orðið Þorlákur er notað um hálgert ómenni. Vísan er svona:

Tæla frá mér tróðurnar
tíðum – silkibanda.
Þokkasmáir Þorlákar,
þeir mér stá til bölvunar.

Þekkti heimildarmaðurinn að ,,hver þollákurinn“ væri sagt í neikvæðri merkingu sem eins konar blótsyrði og eins að einhver væri ,,hálfgerður þollákur“ ef ekki væri á hann treystandi. Um þorlák sem eins konar blótsyrði er í Ritmálsskrá Orðabókarinnar dæmi úr Blöndu:

Aldrei blótaði hún þó, en þyrfti hún að nota ákvæðisorð, sagði hún venjulega þess í stað ,,Hver Þollákurinn“! eða ,,Hver kjóinn“!

Ef rétt er hermt er þessa neikvæðu merkingu að rekja til Símonar Dalaskálds.

Guðrún Kvaran
Janúar 2012