jaðrakan

Jaðrakan er heiti á fuglinum Limosa limosa islandica sem er vaðfugl af snípuætt, rauðbrúnn á háls og bringu, með langt beint nef, raddmikill fugl og glæsilegur. Jaðrakaninn er farfugl og voru varpstöðvar hans aðeins á Suðurlandi fram eftir 20. öld en nú finnst hann í öllum landshlutum.

Af orðinu eru fjölmörg afbrigði, flest í karlkyni og kvenkyni.

Í greininni ,,Fuglsheitið jaðrakan`` lýsir Helgi Guðmundsson útbreiðslu afbrigða orðsins og sögu þess. Helgi setur fram tvær tilgátur um uppruna orðsins. Samkvæmt þeirri fyrri er orðið samsett úr orðunum jaðar og kárn sem talið er merkja `kráka' eða `hrafn'. Samkvæmt síðari tilgátunni er orðið tökuorð úr gelísku, sbr. skosk-gelíska adharcan og írska adhaircín. Gelísku orðin eru höfð um vepju (Vanellus vanellus) en í færeysku eru orðin jaðrakona, jarðarkona höfð um keldusvín (Rallus aquaticus).

Elsta heimild um orðmyndina jaðrakárn í íslensku er handritið AM748 I 4to, frá því um 1300 eða frá öndverðri 14. öld. Orðmyndirnar jaðraka, jaðraki finnast frá því um 1600. Orðmyndin jaðrakan kemst snemma inn í kennslubækur en elsta dæmið er frá Sveinbirni Egilssyni 1848. Helgi telur bókmálsáhrif hafa orðið til þess að þessi orðmynd hefur orðið ofan á í nútímamáli en í rannsókn hans á dreifingu afbrigða orðsins á Suðurlandi á þessi orðmynd sér ekki sérstakt útbreiðslusvæði.

Heimildir
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
  • Guðmundur Ólafsson. 1987. Fuglar í náttúru Íslands. Mál og menning, Reykjavík.
  • Helgi Guðmundsson. 1969. Fuglsheitið jaðrakan. Afmælisrit Jóns Helgasonar 30. júní 1959, bls. 364-386.
  • Íslensk orðabók, tölvuútgáfa. Edda - miðlun og útgáfa. 2000.
  • Talmálssafn Orðabókar Háskólans.