jafndægur

Með orðinu jafndægur er átt við þá stund þegar sól er beint yfir miðbaug jarðar, sem í fornu máli hét jafndægrishringur, og dagur og nótt eru jafnlöng um alla jörðina. Notuð eru orðin og orðasamböndin vorjafndægur, vorjafndægri, jafndægur á vori og jafndægri á vori og eru þau á tímabilinu frá 19.-21. mars en haustjafndægur, haustjafndægri, jafndægur á hausti eða jafndægri á hausti eru á bilinu 21.-24. september.

Í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu segir um vorið að það sé frá jafndægri til fardaga en þá taki við sumar til jafndægris á hausti. Vorið nær því frá því í mars og fram að fimmtudegi í 7. viku sumars sem er á bilinu frá 31. maí til 6. júní. Ýmis dæmi um jafndægur er að finna í ritmálssafni Orðabókarinnar. Eitt þeirra er úr ritinu Veðurfræði eftir Jón Eyþórsson (bls. 13):
  • Um vetrarsólhvörf á norðurhveli veit norðurskautið undan sól, en suðurhvelið að. Hálfu ári síðar er þetta öfugt, þá höfum vér miðsumar. Mitt á milli er jafndægur á vor og haust.
Orðið jafndægur er til í skyldum málum. Í dönsku er t.d. talað um jævndøgn. Í latínu var talað um aeqvinoctium af aeqvus 'jafn' og -noctium sem leitt er af nox 'nótt'. Í hinu forna Rómaríki var því miðað við nóttina en hér í norðri við daginn.

Heimildir
  • Ritmálsskrá OH
  • Árni Björnsson. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík 1993.
  • Jón Eyþórsson. Veðurfræði. Reykjavík 1955.