jól

Sum orð eru svo forn í málinu, komin aftan úr grárri forneskju, að enginn veit lengur hinn eiginlega uppruna þeirra. Þau hafa í tímans rás týnt ættingjum sínum og standa nánast ein uppi, e.t.v. með fáeina afkomendur, sem varpa litlu ljósi á hinn ævaforna uppruna, og standast allar skýringartilraunir fræðimanna.

Eitt þessara orða er jól. Það er miklu eldra í málinu en hið kristna hátíðarhald sem það er nú haft um. Það kynni jafnvel þegar að hafa verið til í germönskum málum fyrir Krists burð. Í fornum heimildum íslenskum kemur fram að heiðnir menn héldu jól, miðsvetrarblót, nær miðjum vetri til að fagna því að sól fór að hækka á lofti. Þegar kristni kom á Norðurlönd og burðartíð frelsarans heilög haldin, færðist jólaheitið yfir á þá hátíð og hefur orðið jól haldist í norrænum málum æ síðan, í færeysku jól, í norsku, dönsku og sænsku jul.

Af jól er dregið orðið ýlir 'annar mánuður vetrar' og í forníslensku kemur fyrir orðið jóln í merkingunni 'goð' og Óðinsheitið Jólnir 'höfðingi jólna'.

Í gotnesku, þar sem málheimildir eru frá 4. öld, kemur fyrir orðasambandið fruma jiuleis, haft um nóvember, eiginl. 'mánuðurinn fyrir jólamánuð'.

Í fornensku kemur fyrir orð sem samsvarar norræna orðinu jól, geol, sem enn er til í ensku, yule, en annars er almenna orðið um jól Christmas 'Kristsmessa' í ensku.

Í þýsku er til orðið Jul, Julfest, en það mun vera síðari tíma tökuorð úr skandinavísku málunum. Á þýsku er haft orðið Weihnachten 'heilagar nætur, vénætur' um jólin.

Hér á undan var sagt að orðið jól hafi staðist skýringartilraunir fræðimanna og þær hefur ekki skort. Ásgeir Blöndal Magnússon segir í orðsifjabók sinni (bls. 433) að uppruni sé óviss og umdeildur. Helst virðast tvær skýringartilraunir koma til greina.
  • Annars vegar að í rót orðsins felist merkingin 'segja, biðja (ákaft)' og orðið merki þá upphaflega einhvers konar bænahátíð.
  • Hins vegar hafa sumir fræðimenn reynt að tengja orðið við hjól og hin upprunalega merking hafi þá verið 'vetrarsólhvörf, árshringur'.
Aðrar skýringar, svo sem að tengja orðið við él 'snjóatíð (dimmutími)', telur Ásgeir að séu lítt sennilegar.

Heimildir
  • A Gothic Etymological Dictionary. Based on the third edition of Vergleichendes Wörterbuch der Gotischen Sprache by Sigmund Feist. By Winfred P. Lehmann. Leiden 1986.
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989.
  • Jan de Vries. Altnordisches etymologisches Wörterbuch. Zweite verbesserte Auflage. Leiden 1962.
  • Ritmálssafn OH