jólaköttur

Sagnir um jólaköttinn eru ekki gamlar. Elsta heimild í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr Íslenzkum þjóðsögum og ævintýrum sem Jón Árnason safnaði saman um miðja 19. öld (II:570). Þar segir:

Var það trú að sú óvættur væri þá á ferð sem var kallaður jólaköttur. Hann gerði reyndar engum þeim mein sem eignuðust einhverja nýja flíka að fara í á aðfangadagskvöldið, en hinir sem ekkert nýtt fat fengu ,,fóru allir í jólaköttinn“, svo hann tók (át?) þá eða að minnsta kosti jólarefinn þeirra og þótti þá góðu fyrir goldið ef kötturinn gerði sig ánægðan með hann.

Fyrir norðan, einkum á austanverðu Norðurlandi, var talað um að klæða jólaköttinn eða aðeins að klæða köttinn og einnig þekktist að sagt væri að sá lenti í jólakettinum sem enga flíkina fékk.

Jólarefur hét einu nafni allt það sem hverjum á heimilinu var skammtað til jólanna á aðfangadagskvöldið. Um þetta segir Jón Árnason:

Af þessu kepptust allir við, bæði börn og hjú, að vinna til þess af húsbændum sínum fyrir jólin að fá eitthvert nýtt fat svo þeir færu ekki í ólukkans jólaköttinn né að hann tæki jólarefinn þeirra, og þegar börnum og hjúum tókst bæði að fá nýja flík, nógan jólaref og þar á ofan jólakerti og það sem mest var í varið, að þurfa ekki að fara í jólaköttinn, var ekki kyn þó kátt væri um jólin til forna.

Þótt það tíðkaðist að allir á bænum fengju nýja skó, svokallaða jólaskó, voru þeir ekki ígildi nýrrar flíkur (Jónas Jónasson bls. 210).

Hjá Árna Björnssyni þjóðháttafræðingi má lesa frekar um jólaköttinn og hvernig hann barst til landsins. Hann bendir á að svipaðar sagnir þekkist í Noregi um afdrif þeirra sem ekki fá nýja flík. Þá er það annaðhvort jólageitin sem tekur börnin eða jólahafurinn sem stelur frá þeim mat. Sú tilgáta hefur verið sett fram að hafurinn og kötturinn hafi klofnað úr púka Nikulásar biskups. Hafurinn hafi borist til Skandinavíu en kattarskömmin til Íslands á selnum með Sæmundi fróða.

        16. desember 2012
            Guðrún Kvaran

Heimildir:

  • Árni Björnsson. 1993. Saga daganna. Bls. 368–372. Reykjavík: Mál og menning.
  • Jón Árnason. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. 1966.  Ný útgáfa. II. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga.
  • Jónas Jónasson frá Hrafnagili. Íslenzkir þjóðhættir. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja h.f.