Jón og Kolbeinn svarti

Margir nota orðið Jón um hægri fótinn en Kolbeinn svarti um hinn vinstri. Oft er sagt þegar verið er að þvo fætur barna eða þurrka og börnin eru ókyrr: ,,Hvar er hann Jón?" eða ,,Hvar er hann Kolbeinn svarti?" Notkunin er sótt í vísu eftir séra Jón Þorláksson á Bægisá.

Hæði þér ekki herrans þjón
um heltina þó að kvarti;
hægri fóturinn heitir Jón
hitt er hann Kolbeinn svarti.

Til er saga um hvernig vísan er til orðin. Ilsýki og helti hrjáðu Jón á efri árum. Eitt sinn var hann að haltra um og sá að strákar voru að líkja eftir honum. Þá kastaði hann fram vísunni um Jón og Kolbein svarta.

Kolbeinn svarti er nefndur á öðrum stað í ljóðmælum Jóns á Bægisá. Það er í kvæði um tóbaksskort og pappírsleysi:

Sjötta bókin eftir er
öll þvínær í sekk hjá mér,
en af pappír óskrifað
ekki minnsta skeinisblað
við sál og heilsu Svarta-Kolbeins sver ég það.

Svarti-Kolbeinn er skýrður neðanmáls sem ,,vinstri fóturinn".

Heimildir
  • Seðlasöfn Orðabók Háskólans.
  • Íslenzk ljódabók Jóns Þorlákssonar prests að Bægisá. Kaupmannahöfn: Þorsteinn Jónsson, 1842-1843.