kærleikur

Fyrir nokkrum misserum fór fram á vefnum kosning eða könnun þess efnis, hvert væri fallegasta orð málsins. Þar kom fram að einna flestir nefndu orðið kærleikur, en einnig komst orðið ljósmóðir á blað yfir fallegustu orð málsins. Nokkrar umræður og skoðanaskipti urðu um þessi orð, og kom þar fram að nokkuð var að því fundið að kærleikur væri erlent orð, tökuorð, í íslensku. Var þá bent á orðin kärlek og kærlighed í skandinavísku málunum því til stuðnings.

Hins vegar er það svo, að orðið kærleikur kemur þegar fyrir í fornu máli bæði í Íslendingasögum og konungasögum. Hér er því naumast á ferðinni erlent orð, tökuorð, í íslensku máli, heldur er hér, að öllum líkindum, um sameiginlegan, norrænan arf að ræða, sbr. fsæ. kærlēker, fd. kærlegh (nd. kærlighed), físl. kærleikr, en notkun og merking orðsins hefur þróast á nokkuð mismunandi veg í hinum einstöku málum. Í forníslensku merkir kærleikur, oft notað í ft. kærleikar, einkum ‘innilega vináttu, dáleika’:

 • gørðist kærleikr mikill með þeim (Flat. I, 65)
 • skildust þeir … hinir beztu vinir með miklum kærleikum (Flat. II, 177)
 • var [Þorkell] um vetrinn með Ólafi konungi í miklum kærleikum (Flat. II, 176)
Að öllum líkindum á orðið kærleikur sér samfellda sögu í íslensku máli, þó að heimildir kunni að vera bláþráðóttar á köflum. En kalla má að það verði hólpið í málinu þegar tekið er að nota það um eina hinna kristilegu höfuðdygða (lat. caritas). Og Oddur Gottskálksson notar það í „kærleikspistlinum“ í Fyrra Korintubréfinu í Nýja testamentis þýðingu sinni, þar sem Lúther notar þ. liebe og Vulgata caritas:
 • Þó að eg talaði tungur mannanna og englanna, en hefða ekki kærleikann, þá væri eg sem annar hljómandi málmur eður hvellandi bjalla. (1Kor 13,1)
 • Kærleikurinn er þolinmóður og góðviljaður. (1Kor 13,4)

Orðið kærleikur kemur einnig fyrir í nokkrum málsháttum sem eiga sér með einum eða öðrum hætti rætur í þessum kafla Korintubréfsins:

 • Láttu kærleikann ráða þér, en ekki reiðina. (GJ, 195)
 • Kærleikurinn ber kostina mesta, besta og flesta. (GJ, 192)
 • Kærleikurinn er dygðanna dýrstur. (GJ, 192)

Í hversdagsmáli nútímans merkir orðið kærleikur nánast það sama og í fornmáli, ‘náin, rík vinátta’ og talað um að vera í kærleikum við, miklir kærleikar voru með þeim, skildust með miklum kærleikum o.s.frv.

Heimildir

 • Flat. I, II.: Flateyjarbók … Christiania 1860 (I), 1862 (II).
 • GJ.: Safn af íslenzkum orðskviðum …, samanlesið og í stafrofsröð sett af Guðmundi Jónssyni … Kaupmannahöfn 1830.
 • 1Kor. 1.: Korintubréfið (Fyrra bréf Páls til Korintumanna).
 • Vulgata. Latnesk þýðing Biblíunnar, notuð í rómversk-kaþólsku kirkjunni síðan á 7. öld.

Skammstafanir

fd.: forndanska
físl.: forníslenska
fsæ.: fornsænska
lat.: latína
nd.: nýdanska, nútímadanska
þ.: þýska

Gunnlaugur Ingólfsson
Febrúar 2009