kaffi

Kaffi er einn vinsælasti drykkurinn í dag, en hvað er langt síðan farið var að drekka kaffi og hvaðan kemur það? Hver er uppruni orðsins kaffi? Hvernig er orðið notað?

Elsta dæmi Orðabókarinnar um orðið kaffi er frá miðri 18. öld:
  • ei að síður gerðum vér yður þó kost á að koma saman utan vín til kaffe eður þvílíks, en þér afslóguð. (1766)
Eins og svo margt annað kom kaffið til Íslands frá Danmörku. Þar í landi heitir það kaffe, en orðið er komið úr arabísku qahwa, sem merkir jú kaffi. Kaffið er upprunnið í Arabíu, en Arabar voru fyrstir til að nýta kaffibaunir á þennan hátt og hefur aðferðin þróast og er nú svo komið að hægt er að velja um margar tegundir af kaffi.

Kaffidrykkja á Íslandi hófst á 18. öld og barst sá siður frá Danmörku eins og áður segir. Ekki hafa allir verið sammála um ágæti kaffidrykkjunnar, eins og eftirfarandi dæmi úr ritmálssafni Orðabókarinnar sýna:
  • nefnum óvætti þessa, sem vér allir þekkjum: ,,kaffe og brennivín``, sem oss eru fullt í gildi stríðs.
  • að draga sem mest úr kaupum hinnar útlendu óþarfavöru, sér í lagi kaffes og brennivíns.
Kaffidrykkja var ekki algeng, stundum aðeins á sunnudögum. Einnig var ýmsu bætt út í kaffið til að drýgja baunirnar.
  • Kaffi var lítið notað handa heimafólki nema á tyllidögum.
  • Þegar kaffið steig í verði, drýgðu fátæklingar það oft með rúgi, brauðskorpum eða matbaunum.
Orðið kaffi er einnig haft um þann tíma er kaffið er drukkið, kaffitímann. Farið er í kaffi í vinnunni, boðið heim í kaffi og svo framvegis.
  • Er ekki að koma matur? - Nei, en það fer að koma kaffi bráðum.
Orðið kaffi er einungis notað í eintölu eins og fjöldi annarra orða sem vísa til einhvers sem ekki er teljanlegt, til dæmis sykur, hveiti og kjöt.

Margvíslegt orðafar er til um kaffi og kaffidrykkju.


Heimildir
  • Ritmálsskrá Orðabókarinnar
  • Ásgeir Blöndal Magnússon 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Reykjavík.

Ólöf Margrét Snorradóttir