kaffisopi

Margvíslegt orðafar er til um kaffisopann. Annaðhvort er kaffið of sterkt eða of veikt eða þá að menn fá sér aukasopa milli máltíða.

Aukasopinn á sér nokkur heiti. Sumir kalla hann Guddusopa en langflestir kerlingarsopa, kerlingarkaffi eða kerlingartár og þá fremur í neikvæðri merkingu. Einnig er aukasopinn nefndur laumukaffi og gestakaffi.

Sterka kaffið á sér einnig mörg heiti. Sumir tala um spákaffi þar sem ekki þykir vænlegt að spá í bolla nema kaffið sé vel sterkt. Aðrir tala um rotsopa, blek, grogg, groms og eitur. Þá er sterkt kaffi nefnt lútur en sjaldgæfust eru heitin doðakaffi og vatnssóttarkaffi. Þau tvö síðastnefndu eru vafalítið orðin til af því að gott ráð þótti að gefa skepnum með doða eða vatnssótt mjög sterkt kaffi.

Fæstum þykir mjög þunnt kaffi gott og eru því valin ýmis háðuleg heiti. Vel þekkt eru meyjarhland, nærbuxnavatn, nærbuxnaskol og nærbuxnaskolp. Fyrir norðan og vestan þekkist að þunnt kaffi sé nefnt ærmiga í sólskini eða ærpissa í götu. Það er notað ef sést í botninn á bollanum þótt hann sé fullur af kaffi. Á Vestfjörðum þekkjast orðin æðahland og æðarhland, í Þingeyjarsýslu fuglahland og lómahland og úr Breiðafirði náhland og steinbítshland. Þá þekkjast einnig orðin glerjavatn, skjávatn og baunaskol um mjög þunnt kaffi. Að lokum þekkja mjög margir orðasambandið það sér í botn á sextugu sem notað er ef sér í botn á fullum kaffibolla. Þetta er fengið úr sjómannamáli, þ.e. á sextíu faðma dýpi.

Heimildir
  • Talmálssafn Orðabóka Háskólans

Guðrún Kvaran
ágúst 2002