kaggi

Orðið kaggi er notað í fleiri en einni merkingu. Elsta merking orðsins er líklega ‘lítil tunna’. Það kemur fyrir í Biskupasögum og Sturlungu sem viðurnefni Þórarins kagga. Elsta dæmi í ritmálsskrá Orðabókar Háskólans er úr Guðbrandsbiblíu sem gefin var út 1584. Í Jesajabók (5.10) stendur:

Tiu Akurlønd Vijngardsins skulu ecke giefa nema eirn kagga Vijns.

Í Morgunblaðinu birtist eftirfarandi klausa í grein 8. nóvember 1913 sem sýnir ýmis samheiti kaggans:

Þótti mönnum gaman að heyra fulltrúann tala um „ílátin“, sem Kn. Z. kallaði ,,kollur“, Tryggvi „fötur“, Lárus „kagga“, Jón Þorl. „skjólur“, borgarstjóri „dúnka“ og Hannes Hafliðason ,,dollur“.

Orðið er að finna í karlkyni kaggur í orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík frá 18. öld (AM 433 fol.) og vitnar hann þar í vísubrot sem talið er frá 17. öld:

Engelsker mínir,
þeir gáfu mér rauða reim,
líka bjór á kagginn minn.

Kaggi er líka til í merkingunni ‘hattur’. Orðabókin á elst dæmi um þá notkun úr blaðinu Speglinum frá 1936 (tbl. 19–20:114):

En Haraldur ku nú samt ætla að mæta með kagga við næstu háskólasetningu, ef einhverjir útlendingar verða þar viðstaddir.

Ætla má að hatturinn hafi fengið þetta nafn af löguninni en átt er við pípuhatt. Þeir voru einnig kallaðir hálfkaggar og heilkaggar eftir því hve hatturinn var hár. Halldór Laxness nefndi bæði orðin í Brekkukotsannál og virðist ekki hafa litið á hálfkagga sem pípuhatt:

með harðan hatt af því tagi, sem nefndir voru hálfkaggar til aðgreiningar frá heilköggum, en svo voru pípuhattar nefndir.

Dæmi í talmálssafni Orðabókarinnar benda þó til að hálfkaggi hafi einnig verið pípuhattur, lægri í kollinn en heilkagginn. Í Íslenskri orðabók (2002:743) stendur reyndar að kaggi sé ‘lágur hattur’ en af dæmum Orðabókarinnar að ráða er fyrst og fremst átt við pípuhattinn.

Enn ein merking er í orðinu kaggi en hún er samkvæmt Orðabók um slangur, slettur, bannorð og annað utangarðsmál (1982:60) ‘glæsileg bifreið’ og nefndar eru samsetningarnar kvartmílukaggi og kaggatöffari. Oftast voru kaggarnar stórir amerískir bílar sbr. dæmi úr Tímariti Máls og menningar (1987:107): ,,Ég er að gera upp amerískan kagga, maður.“

Guðrún Kvaran
febrúar 2009