kaldavermsl

Kaldavermsl, h.ft., þekkjast um allt land. Þeim lýsti Þorleifur Einarsson jarðfræðingur svo í bók sinni Jarðfræði. Saga lands og bergs (s. 139):

… en kaldavermsl kallast lindir, þar sem hiti vatnsins er jafn árið um kring og þá venjulega svipaður meðalárshita staðarins.

Orðið er leitt af lýsingarorðinu kaldur annars vegar og varmur hins vegar. Elst dæmi í söfnum Orðabókar Háskólans er frá fyrri hluta 20. aldar. Ýmsar eldri hliðarmyndir eru þekktar. Frá fyrri hluta 18. aldar þekkjast kaldavermsla, kaldaversla og kaldavesl. Frá lokum aldarinnar er heimild um myndina kaldavesla, og frá lokum 19. aldar um hvorugkynsmyndina kaldaversli.
Síðari liðurinn –vermsl er einnig notaður sjálfstætt sem og hliðarmyndir hans. Þegar í fornu máli þekkist orðið vermsl um volgar uppsprettur. Í Ordbog over det gamle norske sprog, sem Johan Fritzner var höfundur að, eru sýnd dæmi bæði úr Fornmannasögum og Gyðingasögu. Elsta heimild Orðabókarinnar er frá miðri 17. öld og aðeins yngri er heimild um hvorugkynsorðið vesl. Frá fyrri hluta 18. aldar eru heimildir um hvorugkynsorðið versl og kvenkynsorðið versla. 19. aldar heimildir eru síðan um vermsla og vesla.

Í Íslenskri orðsifjabók
Ásgeirs Blöndals Magnússonar er kaldavermsl ekki fletta. Hann gefur vermsl, h.ft., sem flettu í merkingunni ‛volg lind’ (s. 1124) og tengir orðið nýnorska orðinu vermsl ‛lind sem frýs ekki’. Undir sama flettiorði er einnig vermsla ‛jafn hiti á lind’ og vísar Ásgeir þar í nýnorsku vermsle, kvk. ‛kaldavermsl’. Vermsl og vermsla eru leidd af sögninni verma ‛ylja, velgja’ sem aftur er leidd af lýsingarorðinu varmur.

Um vesl, h.ft., hefur Ásgeir elstu heimild frá 15. öld í merkingunni ‛vatnsrennsli, bleyta, vessi’ (s. 1127). Undir sömu flettu hefur hann einnig vesla ‛lindarvatn’. Hann telur orðin líklega skyld fornháþýska nafnorðinu waso, k., ‛votlendi, bleyta’, fornenska nafnorðinu wōs ‛raki, vökvi’ og fornháþýska nafnorðinu wasal ‛regn’.

Um versl, h., hefur Ásgeir elst dæmi frá 17. öld í merkingunni ‛vatnsrennsli, uppskretta’. Undir sömu flettu er kvenkynsorðið versla í sömu merkingu. Þessi orð tengir hann nýnorsku versl ‛uppspretta’ (s. 1125). Orðið telur hann líklega blendingsmynd úr vermsl h.ft., sbr. nýnorsku vermsl, h., og vermsle, kvk., ‛kaldavermsl’, annars vegar og vesl í merkingunni ‛vatnsrennsli, bleyta, vessi’.

Þótt vesl og versl séu ekki sérstaklega sögð notuð um heitar lindir eru þau og hliðarmyndir þeirra þó notuð sem viðliðir í sömu merkingu og kaldavermsl.

  • Heimildir:
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík, Orðabók Háskólans.
  • Johan Fritzner. Ordbog over det gamle norske sprog. http://www.edd.uio.no
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. www.arnastofnun.is

September 2010
Guðrún Kvaran

Fleiri orðapistlar