kálfsfætur

Flestir þekkja að sokkar eiga það til að renna niður kálfann og hrukkast um ökklann. Einkum er þetta algengt um sportsokka, en áður fyrr, fyrir daga sokkabuxnanna, einnig um heilsokka. Um þetta fyrirbrigði eru ýmis nöfn. Algengast er að segja að einhver sé með kálfsfætur eða með kálfslappir en einnig þekkist að hann/hún sé með smalafætur, í lubbasokkum eða í kálfssokkum.

Ýmis orðasambönd þekkjast um að vera með sokkana niður um sig. Meðal þeirra eru:
  • hann/hún gengur með kálfsfætur
  • hann/hún hefur kálfsfætur
Sums staðar þekktist að sagt væri það er sprottið á kálfsfótunum ef sokkarnir höfðu sigið, en annars staðar þekktist að krakkar væru með óristar kálfsfætur. Orðasambandið að flá kálfsfætur er mjög algengt og þekkist um allt land, krakkar voru með flegna kálfsfætur, sjaldnar með flegna smalafætur.


Guðrún Kvaran
október 2003