kárína

Í nútímamáli er algengast að kvenkynsorðið kárína sé haft í fleirtölu, kárínur, og merki ákúrur, skammir eða ráðningu af einhverju tagi, jafnvel hrekkjabrögð.
  • svo hóta þeir málsókn og allskyns kárínum
  • blaðamarkaðurinn hér á landi [hefur] gengið í gegnum svipaðar kárínur og blaðamarkaðir víðast á Vesturlöndum
  • Marga kárínuna er Bretinn búinn að fá á Íslandsmiðum
  • Auðvitað urðu þeir að þola ýmsar kárínur fyrir bragðið
Orðið er reyndar tökuorð úr latínu, carena, þar sem það merkir sérstaka tegund af skriftum, þ.e. 40 daga föstu við vatn og brauð sem kirkjan gerði mönnum að sæta sem yfirbót fyrir ákveðnar syndir. Upprunalega merkingin hélst í íslensku lengi fram eftir öldum, heimildir eru til um orðalagið að fasta kárínu og þess eru jafnvel dæmi að orðið sé notað sem sögn, að kárína, þ.e. fasta í 40 daga. Einnig er sagt að við biskupsstólana hafi í kaþólsku verið sérstakir grjótklefar sem notaðir voru til þessara föstuhalda og hafi þeir einnig nefnst kárínur.

Á 19. öld og síðar er farið að nota orðið almennara um refsingu eða óþægindi sem menn hljóta af öðrum, og loks um aðfinnslur og skammir.

Heimildir
  • Söfn Orðabókar Háskólans.
  • Ásgeir Blöndal Magnússon 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Reykjavík.

Aðalsteinn Eyþórsson