karphús

Merking og notkun
Upphaflega merkti orðið karphús 'hetta' og fáein dæmi um hana má finna í söfnum Orðabókar Háskólans.
 • *Nær kominn er hann á kjólinn grá / [ [...]] með karphús nýtt og hengið blá. (Ritmálssafn OH )
 • *Harpa kvið lét korpna, / karphús grátt bar Harpa. (Ritmálssafn OH)
Nú er orðið fyrst og fremst notað í sambandinu að taka einhvern í karp(h)úsið 'að taka í lurginn á einhverjum, að taka einhvern til bæna' (eiginlega 'að grípa í (kápu)hettuna á einhverjum').
 • *Ég held það sé óhætt að taka þá dugunardulítið betur í karphúsið. (Ritmálssafn OH)
 • Þó ekki til að hjálpa honum niður, heldur til að taka hann í karpúsið. (Ritmálssafn OH)
 • Nei, ég minnist þess ekki að vegavinnufélagi minn tæki mig oftar í karpúsið svo að nokkru næmi. (Ritmálssafn OH)
 • Ummælin lét Robson falla eftir að hans menn voru teknir í karphúsið af Chelsea á Stamford Bridge, 5:0. (Mbl. 11.11.2003)
Frá því seint á 20. öld hefur orðið einnig verið notað sem sérnafn, Karphús (oft með ákveðnum greini, Karphúsið), um hús ríkissáttasemjara í Reykjavík.
 • Fyrstu kjarasamningarnir eru lausir 15. febrúar og útlit er því fyrir að þeir fari fram í nýju húsnæði ríkissáttasemjara, sem gjarnan hefur gengið undir nafninu Karphús manna á meðal. (Mbl 18.11.1999)
 • Stóra samninganefnd Starfsgreinasambandsins var boðuð í Karphúsið klukkan fimm síðdegis (Mbl 8.3.2004)
Uppruni og aldur
Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru allmörg dæmi um orðið, þau elstu frá 17. öld. Bæði koma fyrir myndir með h-i (karphús) og án (karpús), en dæmi um þær fyrrnefndu eru talsvert fleiri.

Talið er að h-lausa myndin sé upprunalegri og þarna sé á ferðinni tökuorð sem borist hafi í Norðurlandamál úr hollensku (ka(r)poets), en eigi uppruna sinn í miðaldalatínu (capucium 'hetta'). Í dönsku er til orðið kapuds 'húfa með eyrnahlífum' sem er af sömu rót runnið.

Myndin karphús, sem líka er gömul í málinu, hefur orðið til við svokallaða alþýðuskýringu í íslensku, þ.e.a.s. við það málnotendur reyndu að tengja orðið við kunnuglega orðhluta.

Orðasambandið að taka einhvern í karp(h)úsið, sem orðið kemur oftast fyrir í nú á dögum, er þekkt frá 19. öld. Sérnafnið Karphús er líkast til dregið af því með eins konar orðaleik sem byggist m.a. á líkindum við sögnina karpa (við e-n/um e-ð) 'þrátta, þrefa'. Fyrstu heimildir um það er frá því um 1980.

Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
 • Talmálssafn Orðabókar Háskólans
 • Gagnasafn Morgunblaðsins
 • Íslensk orðabók. Reykjavík: Edda 2002.
 • Ásgeir Blöndal Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans 1989.
 • Halldór Halldórsson: Íslenzkt orðtakasafn. (3. útg.) Reykjavík: Almenna bókafélagið 1991.
 • Jón G. Friðjónsson: Mergur málsins. Íslensk orðatiltæki. Reykjavík: Örn og Örlygur, bókaklúbbur 1993.
 • Mörður Árnason, Svavar Sigmundsson og Örnólfur Thorsson: Orðabók um slangur, slettur, bannorð og annað utangarðsmál. Reykjavík: Svart á hvítu 1982.